Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 13:32:11 (141)

2002-10-04 13:32:11# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[13:32]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Undanfarið hafa staðið yfir, bæði hér innan veggja og úti í þjóðfélaginu, miklar umræður um heilbrigðismál og hafa nokkuð stór orð fallið í þeirri umræðu, bæði frá hv. þingmönnum í stjórnarandstöðu og úti í samfélaginu þar sem talað hefur verið um að heilbrigðiskerfið væri í rúst, að þar ríkti öngþveiti eins og hv. 18. þm. Reykv. sagði áðan. Það eru tekin fram nokkur atriði sem eiga að sanna það, m.a. að biðlistar lengdust. Vitnað er í stöðu heilsugæslunnar, sérfræðingasamninga, stöðu Landspítalans og fleiri atriði.

Ég vil taka fram í upphafi orða minna í fjárlagaumræðunni að umræða um að heilbrigðiskerfið sé í rúst er varasöm og hættuleg. Hún er ekki sanngjörn gagnvart því fjölmarga fólki sem vinnur í heilbrigðiskerfinu og gerir þar góða hluti dag hvern, veitir góða þjónustu og vinnur sín verk af kostgæfni. Það er ekki þar fyrir að ætíð eru viðfangsefni uppi, sem menn kalla vandamál en ég kalla viðfangsefni, sem við þurfum að leiða til lykta. Þar eru nokkur atriði sem við erum enn þá að vinna í og það er ekkert einsdæmi nú að ekki séu öll kurl komin til grafar við framlagningu fjárlagafrv. Við höfum ætlað okkur að fara yfir tryggingakafla frv. í samvinnu við Samtök aldraðra. Við höfum ætlað okkur að ræða nánar um uppbyggingu hjúkrunarrýma. Einnig hefur verið í gangi vinna varðandi dvalargjöld á dvalarheimilum og er ætlunin að ljúka þeirri vinnu fyrir 2. umr. fjárlaga.

Í fjárlagafrv. eru stigin stór skref varðandi bætta stöðu heilbrigðiskerfisins. Þar eru leiðréttingar á rekstrargrunni Landspítala -- háskólasjúkrahúss auk þess sem stórar fjárhæðir eru þar í fjáraukalögum. Þar er hækkað framlag til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Framlög til hjúkrunarheimila eða rekstrar þeirra eru hækkuð um 350 millj. kr. Framlög til heilsugæslunnar í Reykjavík eru hækkuð auk þess sem óskipt fjárhæð er til að mæta vanda heilsugæslunnar, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem þessi vandi er, eins og komið hefur fram. Einnig á að auka fjármagn til námsstaðna og kandídatsstaðna í heilbrigðiskerfinu um 82 millj. kr. Allt þetta eru stór skref til lausnar á þeim viðfangsefnum sem uppi eru í heilbrigðiskerfinu núna.

En vegna þess að gerð hefur verið nokkur atlaga að mér sem heilbrrh. vegna fjárhagsstöðunnar í heilbrigðisþjónustunni sé ég mig tilneyddan til þess að fara nokkrum orðum um þau mál. Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar var meðal annars tekið fram að heilbrigðisráðherrar Framsfl. hefðu gert mistök og tekið rangar ákvarðanir, að til þeirra mætti rekja þau vandamál sem uppi eru að mati formanns Samfylkingarinnar.

Auðvitað er rétt að steðjað hefur fjárhagsvandi að Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Ég er fyrsti maðurinn til að viðurkenna það. En það eru hvorki ný tíðindi né bundin við heilbrigðisráðherra Framsfl. Stóru sjúkrahúsin í Reykjavík hafa oft verið í fjárhagsvanda þegar nálgast árslok og það má að verulegu leyti rekja til þess að Landspítalinn er nú sem fyrr endastöðin í heilbrigðisþjónustunni og tekur við öllum erfiðustu tilfellunum sem þar koma upp. Vandi Landspítalans er eðli málsins samkvæmt innbyggður í heilbrigðisþjónustuna í landinu og framfarir í heilbrigðisþjónustu. Við erum og verðum að glíma við þennan vanda, greina hann frá degi til dags og takast á við hann. Lyfjakostnaðurinn er einn þáttur í þessum vanda en hann er þáttur í viðleitni okkar til þess að veita sjúklingum þá fullkomnustu lækningu sem völ er á. Ég held að um þetta sé pólitísk samstaða í þjóðfélaginu og ég verð ekki var við að um það sé deilt að það eigi að meðhöndla fólk með þeim besta hætti sem völ er á. Hins vegar tek ég undir það og hef alltaf tekið undir það að nýta þarf það fjármagn sem er inni í heilbrigðisþjónustunni sem best og meðhöndla sjúklinga á réttum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Um það er ekkert deilt.

Ég vil líka leiðrétta það sem kom fram í ræðu hv. 18. þm. Reykv. um að biðlistar hefðu lengst. Tölur sýna að biðlistar hafa styst, enda hefur verið sett fjármagn í það á yfirstandandi ári að stytta m.a. biðlista í bæklunarlækningum sem er mjög tilfinnanlegur. Biðlisti eftir heyrnartækjum hefur líka styst. Það er nauðsynlegt að byggja umræður um heilbrigðisþjónustuna á þeirri stöðu sem er. Það er ekki rétt að draga upp þá mynd af heilbrigðisþjónustunni að þar sé allt í rúst. Það er ekki rétt gagnvart sjúklingum og það er ekki rétt gagnvart því fólki sem þar vinnur.

Ég vil taka það fram að heildarframlögin til stóru spítalanna voru 13 milljarðar árið 1997, 16,2 milljarðar árið eftir, 17,7 milljarðar árið 1999, 20,2 árið 2001 og verða um 22 milljarðar í ár. Fjárframlögin hafa með öðrum orðum aukist um 64% á fimm árum eða sem svarar rúmlega 10% á ári eins og hæstv. forsrh. benti á í stefnuræðu sinni á dögunum.

Þegar vandinn í heilbrigðisþjónustu er til umræðu verður að horfast í augu við það að launin þar hafa hækkað. Hvernig hefur launavísitalan hækkað? Launavísitalan á hinum almenna markaði hefur hækkað um 45% á liðnum fimm árum en það er athyglisverðara að þegar við skoðun launaþróunina almennt hjá opinberum starfsmönnum þá hefur sú launavísitala hækkað um 60% á þessum sömu fimm árum. Þetta er auðvitað veigamesta skýringin á útgjaldaaukningunni í heilbrigðiskerfinu. Hvernig vilja menn bregðast við? Vilja menn hverfa til baka til þess sem var árið 1997 í þessum efnum? Vilja menn lækka laun þeirra opinberu starfsmanna sem vinna í heilbrigðisþjónustunni? Er það lausnin sem er boðuð? Að sjálfsögðu ekki. Það var nauðsynlegt að hækka laun við fólkið í heilbrigðisþjónustunni og það er veigamesta skýringin á þeirri útgjaldaaukningu sem þar hefur verið. (Gripið fram í.) 70% af rekstrarkostnaði Landspítalans er launakostnaður og hann er hærri í dvalarheimilum og hjúkrunarheimilum.

Ég þarf að svara hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni en ég geri það í næsta umgangi.