Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 13:42:42 (142)

2002-10-04 13:42:42# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[13:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra. Það er alls ekki rétt að heilbrigðiskerfið sé í rúst. Þar er verið að gera marga góða hluti. Við eigum mjög gott og hæft starfsfólk í heilbrigðisþjónustunni og það er verið að hagræða þar víða. En ég verð að mótmæla því sem hæstv. ráðherra sagði í sambandi við það sem kom fram á landsfundi Samfylkingarinnar. Það er rétt sem sagt var þar að ekki hefur verið tekið á þenslunni í sérfræðilæknisþjónustunni. Þar hefði auðvitað átt að vera búið að taka á fyrir löngu og lyfjakostnaðinum sem bólgnar út.

Vegna umræðunnar um Landspítalann og að hann sé endastöð þá er það nánast orðið úrelt að föst fjárlög séu á slíkum sjúkrahúsum, þ.e. ef við lítum til nágrannalandanna. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað hann hyggst fyrir um það.

Ég vil síðast spyrja vegna þess að ég hef stuttan tíma hér: Hvað líður loforði hæstv. ráðherra til aldraðra hjúkrunarsjúklinga á Reykjavíkursvæðinu sem hann komst að samkomulagi um í vor? (Forseti hringir.) Hundruð bíða eftir hjúkrunarrýmum. Ég get ekki séð þessara loforða stað í fjárlagafrv. Þetta er hluti t.d. af vanda (Forseti hringir.) Landspítalans.

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þm. að virða tímamörkin. Það eru mjög margir með andsvör og það á að reyna að halda sig við tímamörk.)