Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 13:47:54 (146)

2002-10-04 13:47:54# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[13:47]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála hæstv. heilbr.- og trmrh. um að umræðan um heilbrigðismál er oft og tíðum mjög ósanngjörn. Það hefur reyndar margoft komið hér fram. Hann rakti það í ágætu máli sínu hvernig launaþróun var á Ríkisspítölunum frá 1997--2002 og við sjáum það þegar við í fjárln. erum að fjalla um þennan málaflokk að langstærsti útgjaldaliður í málaflokknum er auðvitað launamál og síðan lyfjamálin. Þess vegna velti ég þeirri spurningu fyrir mér eins og margir aðrir hvort þær grundvallarbreytingar sem við gerðum hér á starfsmannalögum ríkisins árið 1996 hafi kannski ekki verið réttar. Þá er líka eðlilegt að við veltum fyrir okkur hvort við höfðum einhverja aðra möguleika. Getum við farið til baka? Er möguleiki á því? Þess vegna spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort við höfum gert mistök í Alþingi árið 1996 þegar við samþykktum starfsmannalögin.