Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 13:59:19 (156)

2002-10-04 13:59:19# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra. En hefur hlutverk háskólasjúkrahússins verið skilgreint á skýran hátt til þess að hægt sé að leiðrétta rekstrargrunninn? Ég held ekki. Ég vil bæta við þessari spurningu: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að mæta þeim kostnaði sem þar hefur orðið bara við öryggisgæslu vegna sjúklinga sem eru undir áhrifum eiturlyfja? Það kom einnig fram hjá hæstv. ráðherra í ræðu hans að enn væru viðfangsefni óleyst, það ætti eftir að fara yfir tryggingakaflann með Félagi eldri borgara, hjúkrunarrými ætti eftir að skoða og daggjöldin. Komið hefur fram að um 1 milljarð vanti til þess að þau séu eðlileg. Má þá reikna með að við 2. umr. komi fram hækkanir upp á kannski hátt á annan milljarð miðað við þau verkefni sem enn eru óleyst, að frátöldum stofnkostnaði sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, ef heilbrigðiskerfið á að virka?