Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:11:55 (159)

2002-10-04 14:11:55# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:11]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór nokkrum orðum um afkomu ríkissjóðs á undanförnum árum og gerði mikið úr því að frávik hefði verið frá niðurstöðutölu fjárlaga (Gripið fram í.) á einhverju árabili og vissulega er það rétt. En skýringarnar eru tiltölulega einfaldar á því. Sú eignasala sem ráð var gert fyrir gekk ekki eftir, Landssíminn var ekki seldur. Í því fólust miklar upphæðir.

Nú liggur fyrir eins og áður hefur verið greint frá í umræðunni að ríkisreikningur fyrir síðasta ár er kominn út. Þar kemur fram svart á hvítu að þrátt fyrir að afgangur, tekjur umfram gjöld á árinu, hafi verið 8,6 milljarðar kr. í því uppgjöri sem notað er um rekstur ríkissjóðs þá eru tekjur umfram gjöld af venjubundinni starfsemi ríkissjóðs 16,6 milljarðar. Ég tel að það sé bærileg útkoma. Þá er sleppt óreglulegum tekjum eins og eignatekjum en jafnframt óreglulegum gjöldum eins og framlögum vegna lífeyrisskuldbindinga sem ekki koma til greiðslu fyrr en löngu síðar og hlutum eins og afskriftum skattkrafna o.s.frv.

Menn geta ekki fullyrt að áætlanagerð í sambandi við fjárlög ríkisins sé öll í molum, eins og mér heyrðist hv. þm. gera, vegna þess að eitt atriði sem vegur mjög þungt, eins og eignasalan, hefur ekki gengið eftir eins og áætlanir stóðu til. En ég held að mjög gagnlegt sé að líta á afganginn af venjubundinni starfsemi ríkissjóðs. Þá kemur á daginn að afgangur var 26,6 milljarðar 1999, 29,5 árið 2000 þrátt fyrir að bókfærður rekstrarhalli væri þá 4,3 milljarðar eins og þingmaðurinn nefndi, 16,6 milljarðar í fyrra, áætlaður 11,6 í ár og 11 á næsta ári. Ég held að þetta séu athyglisverðar tölur bæði fyrir hv. þm. og aðra sem velta fyrir sér.