Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:14:07 (160)

2002-10-04 14:14:07# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:14]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekkert borið brigður á það sem hæstv. fjmrh. var að rekja hér. Ég var bara segja að menn hefðu lagt fram óraunhæfar tölur þegar þeir gerðu ráð fyrir 34 milljarða kr. afgangi og það var auglýst sem heimsmet við framlagningu frv. Það var nákvæmlega það sem gert var. En niðurstaðan var 8,5 milljarðar í tekjuafgang eða tekjujöfnuð, sem er vissulega gott. Og það er mjög gott, mundi ég telja, á þessu ári, á árinu 2003, ef tekjujöfnuður nær því í raun að verða 3 milljarðar. Það er mjög gott.

En það er verið að leggja upp með tölur sem ekki standast vegna þess að menn hafa ekki gert ráð fyrir þeim breytingum sem verður að grípa til, m.a. vegna þess að fjármuni vantar til reksturs heilbrigðiskerfisins o.s.frv. Ég benti á nokkur atriði sem ég þekki og ég veit að hæstv. fjmrh. veit það líka eins og ég að þetta frv. eins og það er lagt fram ansi myndarlega með 10,7 milljarða afgangi á eftir að breytast og engar líkur eru á því að tekjur aukist í sama mæli og útgjöld. Ég vil bara að menn horfi raunsætt á þetta og ég minni, virðulegur forseti, á það sem hér er að gerast. Ég óttast --- ég vona samt að það verði ekki þannig --- ég óttast að það eigi eftir að verða miklu meira um nauðungaruppboð vegna þess að fólk með millitekjur og háar millitekjur er í hrönnum að missa vinnu.