Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:36:15 (168)

2002-10-04 14:36:15# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:36]

Ásta Möller:

Herra forseti. Við höfum hlustað á þingmenn stjórnarandstöðunnar í dag og hlutskipti þeirra er ekki auðvelt. Á síðasta þingi fyrir kosningar kynnir fjmrh. frv. sitt sem hefur fengið þá einkunn frá forsvarsmönnum atvinnulífsins að það sé aðhaldssamt, það einkennist af langtímahugsun og beri ekki þess merki að vera lagt fram á kosningaþingi. Yfirleitt hafa þessir aðilar verið óvægnir ef þeir telja of lauslega haldið á almannafé og því er hrósið gott. Stjórnarandstaðan engist sundur og saman í dag í tilraun sinni til að finna einhverjar smugur í frv. sem hægt er að gagnrýna og einhverja þætti í efnahagsstjórninni sem má finna veikleika í. Tilraun þeirra til að gera fjárlagafrv. tortryggilegt hefur mistekist á sama hátt og dómadagsspádómar þeirra um þróun efnahagslífsins á undanförnum árum hafa reynst rangir.

Ég mun ekki ræða sérstaklega um stöðu efnahagsmála í ræðu minni, enda hafa aðrir stjórnarliðar gert henni góð skil. Þó vil ég lýsa sérstaklega ánægju minni með að í hartnær áratug hefur kaupmáttur launa verið að aukast. Ég man þá tíð sem þátttakandi í verkalýðsbaráttu á níunda áratugnum að kjarasamningar voru gerðir til stutts tíma og stöðugt barist við að ná upp sama kaupmætti launa og í samningum á undan en verðbólgan át jafnharðan upp allar launahækkanir og oft gott betur. Það var ömurleg staða. Stöðugt var verið að bíta í skottið á sér. Nú hefur kaupmáttur launa hins vegar hækkað að meðaltali um 25% frá árinu 1994 til dagsins í dag og munar um minna í pyngju heimilanna.

Þá vil ég einnig lýsa ánægju minni með að staða fjölskyldna hefur batnað verulega frá því sem var fyrir örfáum árum og öll merki eru um meiri skynsemi í umsýslu fjármála á heimilunum. Ég tel að heimilin í landinu hafi á ný náð áttum eftir gríðarlega aukningu einkaneyslu þegar kaupmáttur launa tók stórt stökk fyrir nokkrum árum samhliða auknu frelsi á fjármálamarkaði. Við sjáum merki um aukinn sparnað heimilanna. Heimilin einbeita sér að því að greiða upp skuldir og einkaneysla er í jafnvægi. Þetta má rekja m.a. til skynsemi í efnahagsmálastjórninni.

Ég tók sæti í fjárln. síðasta vor og tek því nú í fyrsta sinn þátt í umfjöllun fjárln. um fjárlagafrv. Að undanförnu hefur fjárln. fundað með fulltrúum ýmissa sveitarfélaga í landinu og ýmislegt vekur athygli á þeim fundum. Eitt vil ég þó sérstaklega gera að umtalsefni.

Eitt mikilvægasta atriðið í byggðamálum snýr að menntun í heimabyggð og það á við um grunnskóla, framhaldsskóla og aðstöðu til frekara náms, m.a. með fjarnámi. Ljóst er að bylting hefur orðið á tækifærum fólks á landsbyggðinni til náms á undanförnum árum. Hundruð manna og kvenna um allt land eru í fjarnámi, jafnt við innlenda og erlenda háskóla. Ekki þarf að hafa mörg orð um hve verðmætt það er fyrir einstaklinginn og til framtíðar fyrir samfélagið sem hann býr í.

Á síðustu árum hefur Alþingi, ekki síst að frumkvæði fjárln., lagt til fjármagn til uppbyggingar aðstöðu fyrir þetta fólk til að stunda fjarnám sitt og mikilvægt er að styðja það áfram.

Hér vil ég þó gera grunnskólanám sérstaklega að umræðuefni. Í ferð fjárln. um Norðausturland fyrir stuttu vakti það sérstaka athygli mína að Grímseyingar þurfa að senda börn sín af eyjunni til að ljúka grunnskólanámi. Það má vera að hið sama eigi við annars staðar á landinu, en um það hef ég ekki upplýsingar. Ég tel það vera grundvallaratriði að börn fái að ljúka grunnskólanámi í heimabyggð sinni og búi í foreldrahúsum ef þess er nokkur kostur. Þar getur ný fjarskiptatækni auðveldað þeim námið.

Einnig tel ég mikilvægt að taka undir óskir þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa framhalsskóla að þau fái tækifæri til að koma upp skólaseli hjá sér þannig að unglingar geti stundað fjarnám í framhaldsskóla í heimabyggð. Slíkar óskir hafa m.a. komið fram hjá sveitarfélögum á norðanverðu Snæfellsnesi.

Ein helsta gagnrýni stjórnarandstöðunnar í dag snýr að meintum fjárskorti í heilbrigðisþjónustunni og að fjárlagafrv. taki ekki á vanda heilbrigðiskerfisins. Ég vil hins vegar benda á að í frv. til fjáraukalaga sem lagt var fram á Alþingi í gær kemur fram að um 3 milljarðar kr. verði veittir til heilbrigðis- og tryggingakerfisins umfram fjárlög þessa árs. Megingagnrýni stjórnarandstöðunnar á fjárlagafrv. er því fallin um sjálfa sig.

Um vanda heilbrigðiskerfisins má hins vegar hafa mörg orð. Samkvæmt alþjóðlegum stöðlum leggjum við síst minna til heilbrigðismála en aðrar þjóðir. Það er skoðun mín að leiðir til að sporna við sívaxandi heilbrigðisútgjöldum sé að endurskoða skipulag kerfisins. Þá á ég við annars vegar að beina skjólstæðingum kerfisins á rétt þjónustustig og hins vegar að aðgreina fjármögnun og rekstur heilbrigðiskerfisins og færa rekstur í auknum mæli til einkaaðila. Með því á ég ekki við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu í þeim skilningi að almannatryggingakerfið verði lagt niður og fjármögnun kerfisins verði í höndum tryggingafélaga eða einstaklinga og ríkið kæmi hvorki að rekstri né fjármögnun.

Ég vil leggja á það áherslu að Sjálfstfl. er ekki talsmaður einkavæðingar í þeim skilningi að hafa tvöfalt kerfi í heilbrigðisþjónustu. Það liggur við að ég þurfi að endurtaka þessa setningu margoft. Hugaræsingur stjórnarandstöðunnar sem sakar Sjálfstfl. um að vilja einkavæða heilbrigðiskerfið er því óþarfur. Ekki einu sinni róttækasti armur Sjálfstfl. vill einkavæða heilbrigðiskerfið í þessum skilningi. Í því sambandi vil ég benda á grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag eftir formann Sambands ungra sjálfstæðismanna, Inga Hrafn Óskarsson, en hann segir m.a. eftirfarandi um ályktun SUS um heilbrigðismál:

,,Á nýlegu málefnaþingi SUS ályktuðu ungir sjálfstæðismenn um að fjármögnun og rekstur í heilbrigðiskerfinu verði aðskilin. Fjarmögnunin komi áfram frá hinu opinbera, en það dragi sig úr rekstrinum hvar sem færi gefst og einkaaðilum hleypt að.``

Svo mörg voru þau orð og stjórnarandstaðan getur farið að anda léttar og um leið höfum við sjálfsagt stolið glæpnum frá þeim. Ég hvet talsmenn stjórnarandstöðunnar og reyndar ákveðna talsmenn Framsfl. einnig að lesa betur stefnu Sjálfstfl. í heilbrigðismálum og stefnu hans til að greiða úr þessari hugarflækju sinni.

Herra forseti. 18. júlí sl. ritaði ég grein í Morgunblaðið sem ég kallaði Landspítali -- endastöð. Þar ræddi ég um þá skoðun mína að í allt of mörgum tilvikum er fólki vísað í þjónustu á of háu þjónustustigi. Í tilviki Landspítala -- háskólasjúkrahúss hefur skortur á heimilislæknum og minna aðgengi að heilsugæslunni leitt til þess að sjúklingar leita í auknum til LSH með heilsuvanda sem fráleitt er að hátæknisjúkrahús sinni. Aukning heimsókna á bráðadeild spítalans og mikil símaráðgjöf á LSH er merki um þessa þróun. Hér þarf að efla heilsugæsluna.

Jafnframt benti ég á í grein minni í Morgunblaðinu í júlí sl. að setja þurfi á stofn símatorg um heilbrigðisþjónustu þar sem almenningur getur leitað ráða og upplýsinga um aðkallandi vanda og fær leiðbeiningar um hvert á að leita innan kerfisins með tiltekinn vanda. Slík símaþjónusta hefur verið rekin í Bretlandi á vegum opinberra aðila frá árinu 1998 og tekur nú til alls landsins. Sýnt hefur verið fram á að um 40% erinda til heilbrigðisþjónustunnar er hægt að leysa með ráðleggingum gegnum síma. Jafnvel hefur verið sýnt fram á að þessi aðgengilega þjónusta við almenning fækkaði heimsóknum til heimilislækna um helming.

Skortur á hjúkrunarrými og öðrum úrræðum í samfélaginu til að mæta þörfum þeirra sem eru langveikir eða fatlaðir lendir á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Um 140 manns, sem samsvarar um 15--20% rýma á Landspítalanum, eru einstaklingar sem hafa lokið meðferð og bíða annarra úrlausna. Lega á sjúkrahúsi á almennri deild kostar um 48.000 á dag, en dagur á hjúkrunarheimili um 12.000--15.000 að jafnaði. Hér þarf augljóslega bæta við hjúkrunarrýmum, en þar er vandinn nær eingöngu bundinn við Stór-Reykjarvíkursvæðið, en fjöldi rýma á landsbyggðinni er í grófum dráttum í jafnvægi.

Þetta eru nokkur dæmi um að þjónusta er veitt á röngu þjónustustigi sem leiðir til aukins kostnaðar samfélagsins.

Ég vil fagna því að í fjáraukalögum er tekið á vanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss, en jafnframt tel ég að fram þurfi að fara nákvæm greining á þeim verkefnum sem Landspítalinn hefur með höndum og verkefni færð til annarra aðila innan heilbrigðiskerfisins sem eðlilegra og hagkvæmara er að veita annars staðar.

[14:45]

Í umræðu um heilbrigðismál á síðustu vikum hef ég m.a. bent á rangar áherslur í öldrunarþjónustunni. Ég tel of mikla áherslu vera lagða á stofnanaþjónustu fyrir aldraðra og of litla á heimaþjónustu og heimahjúkrun. Ég hef bent á að hér á Íslandi höfum við hlutfallslega flest stofnanarými miðað við önnur vestræn ríki. Ég tel að aldraðir kjósi allra helst að vera heima hjá sér eins lengi og kostur er með þeirri aðstoð sem þarf til að svo megi verða.

Breyta verður áherslunni í þá veru að færa þjónustuna inn á heimili fólks. Það sem er í veginum er m.a. að heimaþjónusta er á vegum sveitarfélaga en heimahjúkrunin á vegum ríkisins. Til áréttingar vegna þessa vil ég nefna Akureyri en það er reynslusveitarfélag á sviði heilbrigðisþjónustu. Þar rekur bærinn félagsþjónustuna og heilsugæsluna í einni einingu. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Þjónusta inni á heimilum fólks hefur aukist verulega á kostnað stofnanaþjónustu. Á síðustu tíu árum í tíð reynslusveitarfélagsins hefur hlutfalli aldraðra Akureyringa á stofnunum fækkað úr 40% í 30%, og fjölgun þeirra sem hafa fengið heimaþjónustu og heimahjúkrun verið á milli 56% og 64%.

Við eigum að horfa til þessarar jákvæðu þróunar á Akureyri sem allt of lítið hefur verið haldið á lofti.

Að lokum vil ég nefna að fjárln. hefur borist neyðaróp frá öllum sveitarfélögum vegna fjárhagslegrar stöðu hjúkrunar- og dvalarheimila og það er alveg nauðsynlegt að heilbrrn. haldi áfram þeirri vinnu að endurskoða daggjöldin því að margir þættir hafa þar áhrif á til að trufla jafnvægið.