Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:48:22 (170)

2002-10-04 14:48:22# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:48]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála hæstv. heilbrrh. varðandi vanda öldrunarheimilanna. Ég sagði hér áðan og hef sagt það áður að ég tel að á síðustu árum hafi verið töluvert mikið lagt í byggingu hjúkrunarheimila hér í landinu. Þegar við skoðum heilbrigðisáætlun sem samþykkt var á síðasta ári kemur í ljós að gert er ráð fyrir að til sé hjúkrunarrými fyrir 25% þeirra sem eru 80 ára og eldri. En ef við skoðum fjölda hjúkrunarrýma í dag er þetta hlutfall miklu hærra ef við höfum það jafnframt til viðmiðunar að við höfum í rauninni 326 hjúkrunarrými umfram áætlaða þörf.

Það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um það hvort við erum á réttri leið varðandi uppbyggingu öldrunarþjónustunnar og hvort við eigum ekki að leggja meiri áherslu á heimahjúkrun og heimaþjónustu.