Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:50:40 (172)

2002-10-04 14:50:40# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Við erum sammála um þetta, við hæstv. heilbrrh.

Ég vil leggja áherslu einmitt á reynslusveitarfélagið Akureyri í þessu sambandi. Ég sagði áðan að á þessu tíu ára tímabili sem sveitarfélagið Akureyri hefur haldið utan um alla þjónustuþætti sem varða aldraða, bæði heimahjúkrun og heimaþjónustu, hefur hjúkrunarrýmum verið fækkað um 12% og þeim sem hafa fengið heimahjúkrun og heimaþjónustu hefur fjölgað um 56--64% sem segir að þeir hafa nýtt peningana á annan máta. Þeir hafa gert öldruðum kleift að vera heima hjá sér með þá aðstoð sem þarf.

Mig grunar stundum að þau rými sem eru til staðar á dvalarheimilum víðs vegar um landið séu frekar fyllt vegna þess að þau eru til staðar en ekki vegna þarfar. Og það er býsna dýrt fyrir samfélagið ef einstaklingur sem kannski hefur ekki þörf fyrir dvöl á dvalarheimili dvelst þar samt bara vegna þess að rýmið er til staðar. Ég held að við þurfum að skoða þetta miklu nánar og að þegar sveitarfélagið verður komið með þetta allt saman í eigin hendur, bæði mat á hjúkrunarþörf og úrræði, muni þessi mál fara á betri veg.