Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:55:20 (175)

2002-10-04 14:55:20# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög skilmerkilegt. Reksturinn á að vera í höndum einkaaðila en skattborgarinn á að borga fyrir hann. Þetta er ekki bara stefna Sjálfstfl., þetta er stefna Verslunarráðsins. Það er búið að boða til margra morgunfunda og kaffifunda til að kynna þessa stefnu. Og það eru ekki bara ungir sjálfstæðismenn sem skrifa í blöðin, starfsmenn Verslunarráðsins eru líka með greinar í blöðunum í dag.

Hvers vegna vilja menn hafa þennan hátt á? Það er til að hafa arðinn út úr kerfinu. Og hvers vegna skyldum við vera á móti þessari stefnu? Hvers vegna? Vegna þess að það er miklu dýrara og óhagkvæmara fyrir skattborgarann, fyrir samfélagið, að hafa þennan hátt á. Það er þess vegna sem við erum andvíg því. Það er þess vegna sem við erum andvíg einkavæðingarstefnu Sjálfstfl. Það er þess vegna sem við höfnum því að einkavæða félagsþjónustuna og heilbrigðiskerfið. Það er dýrara, óhagkvæmara, ekki aðeins ávísun á misrétti í samfélaginu. (ÁRJ: Og minni gæði.)