Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 14:59:53 (178)

2002-10-04 14:59:53# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[14:59]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Eins og heilbrigðiskerfið er menntakerfið í stöðugri þróun. Það sem þótti eðlilegt áður fyrr, að senda börnin af bæ í heimavist eða í aðra landshluta til mennta, þykir í dag ekki eins sjálfsagt. Það er því mjög eðlilegt að skoðaðar séu leiðir til að færa menntunina í heimabyggð. Við sjálfstæðismenn hlustuðum á heimamenn í Snæfellsbæ, ekki alls fyrir löngu, þar sem þeir lýstu því hvað það skipti þá miklu máli að hafa börnin heima. Auðvitað eigum við að stefna að þessu.

Í ýmsum þeirra tilvika sem hv. þm. nefndi að nám hefði verið lagt niður hefur það verið vegna ónógrar þátttöku. Ég held að hann geti staðfest það. En þá getum við í dag horft til framtíðar með aðrar leiðir í þessu sambandi, með því að byggja upp þessar fjarnámsmiðstöðvar sem við höfum rætt um, og börn og unglingar, sérstaklega unglingar, geta þá fengið tækifæri til að stunda nám sitt heima. Því fylgir minni kostnaður fyrir heimilin og það eru mun eðlilegri uppeldisaðstæður. Ég held að við séum sammála um þetta og auðvitað eigum við að stefna að þessu.