Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 15:03:34 (181)

2002-10-04 15:03:34# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er eitthvað roð sem bögglast fyrir brjósti þingmanna Sjálfstfl. í heilbrigðismálum. Hv. þm. Ásta Möller vísaði á greinar í blöðum í dag þar sem menn gætu kynnt sér viðhorfið. Ég þarf ekki að lesa nein blöð til þess að gera mér grein fyrir hver sé undirstöðustefna Sambands ungra sjálfstæðismanna í þeim málum. Ég hef hana hér orðrétta, með leyfi forseta:

,,4. Sjúklingar greiði fyrir fæði að fullu og lyf upp að vissu marki þegar þeir leggjast inn á sjúkrahús.

5. Rekstur stoð- og þjónustudeilda ríkisrekinna sjúkrastofnana verði boðinn út hið fyrsta.

6. Heilsugæslulæknum verði veitt frelsi til að starfa sjálfstætt. ...

8. Hámarksgreiðslur fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu verði hækkaðar.``

Hér er þessi stefna kaldhömruð á nýafstöðnu þingi Sambands ungra sjálfstæðismanna. Á móti þessum ályktunum tók hæstv. forsrh., formaður flokksins, athugasemdalaust.

Hv. þm. Ásta Möller og Einar Oddur Kristjánsson töldu það vera skyldu sína að leggja stjórnarandstöðunni hið versta til í sambandi við þetta mál, að hún hefði allt á hornum sér. Ég vil aðeins rifja það upp --- það kann að vera að þau hafi samið þessar ræður sínar í gær --- en ég vil rifja það upp að ég lauk lofsorði á heildarniðurstöður þessara fjárlaga þótt ég fyndi að vísu að ýmsum einstökum atriðum.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er víðs fjarri og það þykir mér miður því að hann fór mikinn í ræðu sinni og dásamaði stjórnarhættina undir forustu Sjálfstfl. í bak og fyrir og gat þess m.a. að allur þessi árangur hefði náðst ekki síst fyrir þann markaðsbúskap sem öllu hefði verið stefnt í. Hann gat ekki sérstaklega um hinn frjálsa markað og markaðsbúskap í sambandi við framkvæmd sjávarútvegsstefnunnar. Það hefði hann þó átt að gera því það hlýtur að standa honum einna næst, t.d. það hvernig Eimskip fer að á næstu árum að kaupa sér veiðiheimildir á frjálsum markaði fyrir svona eins og 40 milljarða að verðmæti. Hann hefði átt að fara einhverjum orðum um það þegar hann dásamaði hæstv. ríkisstjórn. En það skyldi þó ekki verða á næstu árum að þær byggðir sem hann hefur boðist til þess að veita forustu á hinu háa Alþingi muni brotna saman vegna þeirrar stefnu sem Sjálfstfl. ber höfuðábyrgð á ásamt að sjálfsögðu framsóknarviðhenginu.

Hv. þm. tók fram að hér mundi Sjálfstfl. ekki leggja velferðarkerfið af heldur þvert á móti. Við sáum og heyrðum hvað Samband ungra sjálfstæðismanna samþykkti í þeim efnum. Hann lagði enn á ný mikla áherslu á bölvun launakerfis hinna opinberu starfsmanna sem hann taldi að bæru höfuðábyrgð á þeim ófarnaði á vinnumarkaði vegna verðþenslu sem við hefðum sára reynslu af. Hann er þar áreiðanlega að tala um hækkun á launum kennara. Það á að vera höfuðatriði á launamarkaði að endurskoða launakerfi opinberra starfsmanna með það fyrir augum augljóslega að skerða þau svo sem um munar til að rétta af fjárhag ríkisins. Öðruvísi verður þetta ekki skilið.

Hann flutti ástríðuþrungna ræðu um heilbrigðiskerfið, sömu ræðuna sem hann hefur flutt síðan ég kom hér aftur á hið háa Alþingi og sjálfsagt í fjögur ár þar áður, og hafði engar tillögur fram að færa, þessi varaformaður fjárln. En eftir öll þessi ár, sjálfsagt sjö hjá honum, er þó komið að því að því að hann sagði, hv. þm., að kostnaðargreina heilbrigðiskerfið. Það er ekki lengra komið en svo að það á að fara að kostnaðargreina heilbrigðiskerfið og varaformaðurinn er búin að tala um þessi mikilvægu mál og þessi vandræðamál sem þetta hefur verið í kerfinu, heilbrigðismálin.

Hv. þm. Einar Oddur kvað upp úr um það að hann mundi aldrei samþykkja það sem nú væri ætlað fjármagn til Byggðastofnunar. Hann sagðist ekki geta á sér setið að lýsa yfir andstöðu sinni við þau áform. Sjálfsagt tekst honum að auka fjárframlög til Byggðastofnunar, en ætlar hann með því fjármagni að rétta við þau ósköp sem ríða yfir landsbyggðina hringinn í kringum landið og stafa af þeirri stjórn á fiskveiðum sem hér er uppi og rekin er af núv. hæstv. ríkisstjórn. Ég hugsa að það verði seintekið og seinunnið svo ekki sé meira sagt.

Ég hef marglýst því yfir að ég er einkavæðingarsinni. Það er mjög langt síðan ég lýsti því yfir að ég vildi ekki að ríkið væri að vasast í rekstri banka. Og þegar það kom á daginn að menn brugðu á það ráð að einkavæða banka þá var ég eindregið því fylgjandi og bjó að sínu leyti þann banka sem ég starfaði í undir þá breytingu. En enginn sem að þeim málum vann hefði tekið í mál að starfa að undirbúningi einkavæðingar nema fyrir það að því var lýst yfir af stjórnvöldum seint og snemma að um dreifða eignaraðild yrði að tefla þegar yrði um einkavæðinguna að ræða. En við sjáum hvernig það fer úr hendi. Ég hef blátt áfram ekki þrek til að ræða sérstaklega það sem við blasir í sambandi við einkavæðingu Landsbankans og þó einkum og sér í lagi Búnaðarbankans.

Það liggur fyrir að það er allangt liðið síðan ákveðið var að Búnaðarbankinn skyldi lenda í höndum framsóknarmanna og af því sem það væri minni biti en Landsbankinn sem Sjálfstfl. á víst að hljóta þá var brugðið á það ráð að færa eignarhlutdeild Landsbankans í Vátryggingafélagi Íslands að næturlagi bak luktum durum yfir til SÍS-aranna sem eiga að sjá um þjónustu við flokkinn sinn og er vel trúandi til þess, ekki síst þeim sem var valinn í VÍS. Hann hefur manna mesta hæfileika til að mismuna í starfi sínu fyrir flokkinn sinn, enda var hann þess vegna valinn.

Nei, ég endurtek það að mér líst allvel á þetta fjárlagafrv. og miklu betur en mér hefur litist á þau frv. sem ég hef haft tækifæri til að ræða á þremur næstliðnum þingum að svo miklu leyti sem ég hef haft tök á að kynna mér frumvarpið á nokkrum dægrum síðan ég fékk fyrstu fréttir af því. Ég lýsi þess vegna yfir trausti mínu á fjmrh. og alveg sérstaklega treysti ég honum til þess að láta ekki hafa sig út í ófæru eins og deCODE-ábyrgðina.

Það hefði farið á annan veg ef ýmsir samráðherrar hæstv. fjmrh. hefðu ráðið för, sér í lagi formaður ríkisstjórnarinnar sem virðist ákaflega ósýnt um vitsmunalega afstöðu í efnahagsmálum og fjármálum eins og hið fræga deCODE-mál lýsir betur en annað.