Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 15:36:40 (189)

2002-10-04 15:36:40# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[15:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að þetta eru ákaflega spennandi og góð verkefni. En það hafa verið lagðar ákveðnar áætlanir um uppbygginguna bundið landshlutum og teknir hafa verið nýir landshlutar inn í þessi verkefni. Og mjög metnaðarfull plön hafa verið lögð sem menn hafa bundið vonir við að staðið yrði við þannig að einhverjir prósentuútreikningar hér frá því áður en þessi verkefni fóru af stað segja okkur ákaflega litla sögu. Það er einmitt ríkisstjórnin sjálf, m.a. vegna kolefnisbindingar, sem ákvað að setja í þetta aukið fjármagn og síðan eru sett lög og lagðar niður áætlanir, kostnaðarreiknaðar áætlanir, um það hvernig verkefnunum verði fram hrundið og það eru þær sem eru að hrynja til grunna. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir verður bara að horfast í augu við það að ef fjárveitingarnar verða eins og þær eru núna í fjárlagafrv. og ekki verður betur gert, þá hrynja þessar áætlanir til grunna og engir nýir aðilar komast inn í verkefnin. Það er það sem ég er að benda á og gagnrýna, ekki það að verkefnin séu ekki góð og að það eigi ekki að halda áfram með þau, heldur þvert á móti.

Það er ákaflega mikilvægt að menn geti treyst því að þær áætlanir sem þarna eru lagðar og þeir samningar sem gerðir eru standi. Í raun og veru held ég að það verði að færa þetta yfir á það form að langtímarammaáætlanir liggi til grundvallar sem séu undirritaðar bæði af landbrh. og fjmrh. og gerðir verði skuldbindandi samningar, löggerningar, sem haldi fyrir dómstólum ef á þarf að halda vegna þess að menn leggja mikið undir, þeir sem fara inn í þessi verkefni, og binda sjálfum sér og sínum skyldur með því. Þeir verða að geta treyst því að stjórnvöld standi við sinn hlut.