Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 15:44:57 (194)

2002-10-04 15:44:57# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[15:44]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Samningar sem menn gera og hafa ekki samþykki landbrh. og fjmrh. eru auðvitað samningar af þeirri gerð að ekki er hægt að ganga út frá því vísu að þeir nái óbreyttir fram að ganga inn í fjárlagafrv. Ég er því ekki viss um að þær fullyrðingar fái staðist, sem hv. þm. var með í ræðu sinni, um hvers konar samningar það væru sem hann sagði að væri verið að vanefna. Ég held að hann verði þá að færa betri rök fyrir máli sínu í þeim efnum.

En ég vil víkja aðeins að því sem fram kom í máli þingmannsins varðandi atvinnuþróunarfélög. Ég tel að þingmaðurinn fari með rangt mál í þeim efnum. Í fyrsta lagi er það ekki rétt að framlög til atvinnuþróunarfélaga hafi dregist saman. Þvert á móti. Framlög til atvinnuþróunarfélaga sem voru 65 millj. kr. á ári á fjárlögum voru hækkuð við gerð fjárlaga 2001 upp í 103 millj. kr. til þess að Byggðastofnun, sem gerir þessa samninga við félögin, gæti staðið við þá samninga sem gerðir voru nokkrum árum áður, en stofnunin gerði þá samninga um að verja meira fé til félaganna en stofnunin fékk af fjárlögum til þessa verkefnis. Og til þess að þurfa ekki að færa samningsfjárhæðirnar niður í fjárlagaupphæðina, 65 milljónir, þá var fjárlagaupphæðin hækkuð upp í 103 milljónir. Það er í megindráttum það sem er í fjárlagafrv. í dag.

Það er rétt að samningum var sagt upp, fyrst og fremst vegna þess að athugasemdir komu fram frá Ríkisendurskoðun um efni samninganna. Hún taldi að það yrði að endursemja þá og gera þá markvissari, en vegna flutnings Byggðastofnunar dróst að gengið væri frá því. Þegar ljóst var að ríkisstjórnin hafði samþykkt í sínum hópi að stefna að því að tvöfalda framlög til atvinnuþróunarfélaga á næstu árum ákvað stjórn Byggðastofnunar í sumar að festa samningana á nýjan leik þannig að menn vita að þeir eru í gildi og það hefur allan tímann verið greitt samkvæmt þeim.