Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 16:24:17 (201)

2002-10-04 16:24:17# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[16:24]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú ekki tilbúinn að skrifa undir afsögn ríkisstjórnarinnar í mars.

En markmiðið með starfi þeirrar samstarfsnefndar sem hefur hafið störf og aldraðir eiga aðild að, var eins og hefur fram komið í umfjöllun um það mál að gera áætlun um lífskjör aldraðra og bætur á þeim og stíga með því skref sem kemur fram við 2. umr. fjárlaga. Ég vil á þessu stigi, vegna þess að þessi mál eru í vinnslu og viðræðufarvegi, ekki nefna tölur í því efni, ég tel það ekki rétt á þessu stigi. En það er fullur vilji hjá ríkisstjórninni að standa að þessu. Það var samstarfsnefnd í málefnum aldraðra sem ákvað þessa aðferð og í henni eiga sæti fjórir ráðherrar þannig að það er vilji ríkisstjórnarinnar sem þarna kemur fram.

Varðandi fjölda hjúkrunarrýma þá ætla ég heldur ekki að fara með tölur í því efni en ég hygg að á Vífilsstöðum mætti koma upp yfir 50 rýmum á ekki mjög löngum tíma ef í það væri farið, um 50 varanlegum rýmum, að auki 19 rýmum á biðdeild sem er nauðsynlegt mál því að fráflæðisvandinn á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi hefur líka verið hér til umræðu og ég geri mér fulla grein fyrir honum. Þar væri hægt að koma upp 19 rýmum sem væru úrræði fyrir þá sem þurfa að útskrifast af spítalanum.