Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:11:26 (216)

2002-10-04 17:11:26# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:11]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. heilbrrh. örlítið út í eitt lítið mál sem hann minntist á í ræðu sinni. Hann talaði um þátt launamála í útgjaldavanda heilbrigðisstofnana. Það er eiginlega nauðsynlegt að fá nánari skýringar á því varðandi samanburðinn, sem ég hef verið að dunda svolítið við hér í dag, við árið 1999, vegna þess að þegar Ríkisendurskoðun hafði tekið saman yfirlit yfir þennan vanda, þá komst Ríkisendurskoðun m.a. að þeirri niðurstöðu að að verulegu leyti mætti rekja þennan vanda til afleiðinga kjarasamninga sem gerðir voru á árinu 1997--1998. Einnig kom fram að það væri ljóst að framkvæmd þessara kjarasamninga sem þarna voru gerðir höfðu farið á allt annan veg en stjórnvöld hugðu. Og einnig eins og segir að að því er virtist gerðu stjórnendur margra stofnana sér ekki grein fyrir hvaða launahækkanir fólust í reynd í þeim samningum sem þeir gerðu og skrifuðu undir.

Þetta var til umfjöllunar á þeim tíma og gerðar voru tillögur og samþykktar reglur sem átti að framkvæma. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig til hafi tekist frá þeim tíma og hvort ég hafi skilið hæstv. ráðherra rétt að í raun og veru væri þessi vandi enn til staðar og að verið væri að gera samninga á stofnununum sem virðast fara svipaða leið og þeir gerðu árið 1999.

Einnig er athyglisvert sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að launaþátturinn hjá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi hafi aukist um 8,3 milljarða frá 1997, ef ég hef tekið rétt eftir. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi í fórum sínum hliðstæðar tölur fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, vegna þess að komið hefur fram hjá forsvarsmönnum þeirrar stofnunar að þeir telji sig ekki hafa fjármagn til þess að ljúka samningsgerð við starfsfólk sjúkrahússins.