Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:36:35 (226)

2002-10-04 17:36:35# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:36]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað tala staðreyndirnar sínu máli (Gripið fram í: Nei, nei.) og síðan geta verið á þeim ýmsar skýringar. Ég skal ekkert draga það í efa sem hv. þm. sagði. Ég hef ekki kynnt mér það allt til hlítar. Fyrir liggur að launavísitalan á fimm ára tímabili almennt yfir allan launamarkaðinn hefur hækkað um 45%. En launavísitala opinberra starfsmanna og bankamanna hefur hækkað um tæplega 60%. Ef maður tekur bankamennina út úr og skoðar bara opinberu starfsmennina þá er það yfir 60%. Því er alveg ljóst að stjórnarflokkarnir hafa verið að bæta kjör opinberra starfsmanna. Menn þurfa ekkert að verja það. Það er bara ákvörðun sem menn taka. Ég held að fjmrh. geti verið stoltur af því að hafa staðið að því. Hins vegar þýðir það auðvitað að útgjöldin aukast. Menn verða auðvitað að hafa í huga að það fylgir því.

Ef við skoðum útgjöld til Landspítalans á þessu tímabili og tökum saman Borgarspítalann til að hafa tölurnar saman þá hefur orðið, eins og bent hefur verið á, veruleg hækkun á framlögum til spítalans, eða yfir 10% á ári að meðaltali.

Þegar þessi hækkun er skoðuð kemur í ljós að langstærstur hluti hennar, eða um 74%, er hækkun vegna samningsbundinna launa eða verðlagsbóta. Það er langstærsta skýringin á þessum hækkunum á umræddu árabili.