Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:41:12 (229)

2002-10-04 17:41:12# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:41]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þm. um nauðsyn þess að hafa kostnaðargreininguna í lagi þannig að menn hafi fullkomna vitneskju um kostnað við einstakar aðgerðir og geti borið það saman eftir ólíkum rekstrarformum. Ég held að slíkt þurfi að vera og ég held að það standi dálítið upp á ríkið að hafa það í lagi. Ég er alveg sammála þingmanninum í þeim efnum.

Ég vil bara taka fram fyrir mitt leyti að af minni hálfu er enginn misskilningur um þessar tölur um greiðslur til sérfræðinga. Mér er alveg ljóst að þetta eru brúttótölur. Þetta eru greiðslur fyrir verkið og af þeim greiðslum greiða þeir síðan kostnað sem þeir hafa við að framkvæma verkið, auk eigin launa. Af minni hálfu er því enginn misskilningur um það þannig að umvandanir þingmannsins eiga þá væntanlega við um aðra sem hafa kannski fjallað um þetta af ónákvæmni.

Ég vil bara segja að lokum, herra forseti, að ég vil ekki ræða um þessi launamál eða heilbrigðismál á þeirri forsendu að stærsta málið séu launamálin og að þau hafi hækkað svona mikið og allt það. Þau hafa gert það og það eru ákveðnar skýringar á því og ekkert er við það í sjálfu sér að athuga. En það sem ég dreg fram er að kostnaðurinn við íslenska heilbrigðiskerfið er mjög hóflegur í samanburði við OECD-löndin. Það er punctum saliens í málinu. Kostnaðurinn við íslenska kerfið er hóflegur. Íslenska kerfið er mjög gott og kannski má segja með sterkum rökum, þótt maður geti ekki fullyrt eða sannað það algerlega, að það sé besta kerfi í heimi. Að geta rekið slíkt kerfi fyrir þann kostnað sem er í raun og við sjáum hver er í alþjóðlegum samanburði, tel ég vera gífurlega vel að verki staðið, bæði af hálfu þeirra sem starfa í greininni og af hálfu opinberra aðila.