Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:58:31 (235)

2002-10-04 17:58:31# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:58]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Í rauninni er þetta ekkert nýtt sem er að koma frá bandaríska heilbrigðisráðherranum vegna þess að þetta eru sjónarmið sem hafa komið frá sérfræðingum á vegum OECD sem hafa verið með samanburð á heilbrigðiskerfum víða um lönd. Þeir komust að þeirri niðurstöðu, í skýrslu sem var gerð fyrir ekki svo mörgum árum, að við nýttum fjármagnið mun betur en flestir aðrir og miklum mun betur heldur en þeir sem hefðu farið inn á braut einkavæðingar.

Hversu vel þessi bandaríski heilbrigðisráðherra kynnti sér málin hér á landi --- ég veit ekki hvort hann sat fundi Verslunarráðsins eða annarra sem hafa talað fyrir því (Gripið fram í.) --- ég veit ekki hvort hann gerði það eða sat slíka fundi en mér er að sjálfsögðu kunnugt um það að þeir sem vilja taka hagnað út úr þessu kerfi eru náttúrlega mjög áfram um að einkavæða það.

Það sem mér finnst vera umhugsunarefni, og þá vísa ég aftur í þann samanburð sem ég var að gera á dvalarheimilum aldraðra, er hversu miklu ríflegar er skammtað til þeirra sem reka þessi heimili sem atvinnurekstur og ætla að hafa hagnað út úr honum, hve mikil mismununin er gagnvart hinum stofnununum, fjárvana, sem sjá öldruðum fyrir dvalarrými, að það skuli vera kreppt að þeim á sama tíma og hinum er skammtað rúmlega til þess að þeir geti borgað arð út úr þessari starfsemi.

Finnst mönnum þetta virkilega hafa verið til framfara? Nei. Og að þessu leyti --- ég held að ég sé ekki mjög oft sammála ráðherra í ríkisstjórn repúblikana í Bandaríkjunum --- er ég sammála ráðherranum.