Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 18:34:46 (244)

2002-10-04 18:34:46# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[18:34]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. svaraði ekki spurningu minni sem hljóðaði svo: Hversu mikið mun verða greitt niður af erlendum skuldum, annars vegar ríkisins og hins vegar þjóðarbúsins á þessu og næsta ári?

Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að erlendar skuldir annarra aðila en ríkisins hafi ekki áhrif á þjóðarhag. Þær hafa áhrif á getu atvinnulífsins til framtaka og átaks. Þær hafa áhrif á lánshæfi íslenska ríkisins í heild. Að sjálfsögðu skiptir miklu hvernig þjóðarbúskapurinn er að breytast. Getum við greitt niður þessar skuldir eða ekki og erum við að gera það?

Herra forseti. Í öðru lagi verður ekki fram hjá því litið að skattbyrðin er að færast yfir á lágtekjufólk og yfir á almennar launatekjur og það er þróun sem er virkilega athugunarverð. Í gangi eru skattbreytingar. Við erum að lækka skatta á þeim sem hafa hærri tekjur. Við erum að lækka tekjuskatta á fyrirtæki sem skila hagnaði þannig að við erum að framkvæma skattbreytingar. En þær færast til yfir á lægstu tekjurnar.