Samþjöppun valds og auðs í þjóðfélaginu

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:05:18 (260)

2002-10-07 15:05:18# 128. lþ. 5.2 fundur 145#B samþjöppun valds og auðs í þjóðfélaginu# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Við setningu Alþingis sagði forseti Íslands að breytt hlutföll auðs og áhrifa settu í æ ríkara mæli svip á samfélagið. Forseti sagði að líkt og í mörgum nágrannalöndum hefði verið leitast við að draga úr mætti almannavaldsins. Nefndi hann að nýjar leikreglur kynnu að eiga þátt í þessu.

Forseti sagði einnig að Íslendingar hefðu notið þess að hér hefur þróast opið og lýðræðislegt þjóðfélag þar sem viðunandi jafnvægi hefur ríkt og hvorki óhóflegur auður né annarleg áhrif skákað þeim rétti sem umboðið frá fólkinu veitir. Hér hafi ríkt samstaða um samfélagsgerð sem þjónaði best hagsmunum lands og þjóðar. Forsetinn varpaði fram þeirri spurningu hvort þessi samfélagsgerð væri að breytast.

Nú er það svo að margir hafa áhyggjur af samþjöppun valds og auðs í þjóðfélaginu sem ógnað getur almannahagsmunum og má víða sjá slíka samþjöppun í atvinnugreinum eins og á matvælamarkaðnum, hjá trygginga- og olíufélögunum og á fjármálamarkaðnum.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann sé sammála þeim ummælum forsetans að breytt hlutfall auðs og áhrifa setji í æ ríkara mæli svip sinn á samfélagið og þá um leið hvort hæstv. forsrh. telji ástæðu til þess að bregðast við þeirri miklu samþjöppun á valdi og auði, einokun og fákeppni sem virðist vera sívaxandi í þjóðfélaginu.