Framlög til þróunarhjálpar

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:16:23 (268)

2002-10-07 15:16:23# 128. lþ. 5.2 fundur 146#B framlög til þróunarhjálpar# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Ég deili ekki við hann um að að sjálfsögðu þarf að undirbúa þróunaraðstoð og leggja góðan grunn að slíku. Maður hefur því sætt sig við að það taki sinn tíma að auka fjárveitingar til Þróunarsamvinnustofnunar. En því miður eru þær bara ekki að aukast. Hlutfall framlaga Íslendinga stendur í stað þriðja árið í röð ef engar breytingar verða gerðar að þessu leyti á fjárlagafrv.

Varðandi það að ekki sé fjárveiting á fjárlögum yfirstandandi árs til að mæta tilfallandi verkefnum af þessu tagi sem koma upp fyndist mér vel koma til álita að hafa heimildir, t.d. á heimildagrein fjárlaga, fyrir ríkisstjórn í samráði við Alþingi til að mæta slíkum tilfallandi uppákomum.

Við þurfum í sjálfu sér ekki að láta þetta vefjast fyrir okkur núna því að fjáraukalagafrv. liggur á borðum þingmanna. Því eru afar hæg heimatökin að setja inn heimildir til að auka fjárveitingar til neyðaraðstoðar og ég skora á þingmenn að taka það til skoðunar að tvöfalda framlag til Rauða krossins.