Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:23:21 (272)

2002-10-07 15:23:21# 128. lþ. 5.2 fundur 147#B sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef sagt að ákveðin teikn séu á lofti. Það er mikið að gerast á vettvangi Evrópusambandsins. Það eiga sér stað samningaviðræður við margar þjóðir, við Möltu, Lettland, og Pólland, og hv. þm. geta lesið ýmislegt út úr þeim samningaviðræðum sem þar hafa átt sér stað.

Ég hef lagt fram hugmyndir um að komið verði upp sérstöku stjórnunarformi á Norður-Atlantshafi. Það liggur fyrir og út af fyrir sig hafa margir tekið vel undir þær hugmyndir. En ég get ekkert farið nánar út í það enda getur ekki reynt á þær nema til raunverulegra samningaviðræðna komi um þessi mál. En það hlýtur að vera af hinu góða að settar séu fram hugmyndir um hvernig þessum málum gæti verið komið fyrir þannig að menn geri sér grein fyrir málunum. Það hef ég gert. Ég hef hins vegar ekki tekið endanlega afstöðu til þess (Forseti hringir.) enda er það ekki hægt nema að loknum samningaviðræðum, ef þær fara einhvern tímann fram eins og hv. þm. sagði hér.