Ættleiðingar

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:25:44 (274)

2002-10-07 15:25:44# 128. lþ. 5.2 fundur 148#B ættleiðingar# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Þetta er vissulega vandmeðfarinn málaflokkur og viðkvæmur eins og við öll vitum. Ég tel rétt að láta þess getið að þessi mál fá alltaf mjög vandlega skoðun, sérstaklega vandaða skoðun. Leitað er umsagna sérfræðinga, fengin umsögn frá barnaverndarnefndum á viðkomandi stað o.s.frv. En segja má að grundvöllur fyrir ættleiðingu, þ.e. þegar barn er gefið til foreldra, sé að foreldrarnir hafi bæði félagslega getu og aðstæður, þ.e. líkamlegar og andlegar, til að ala barnið upp til fullorðinsára. Þetta er sú viðmiðun sem er uppi.

En þó að þessi mál fái góða skoðun geta komið upp svona vafatilvik og þess vegna er hægt að vísa þeim til sérstakrar ættleiðingarnefndar sem í eiga sæti bæði lögfræðingur, læknir og sálfræðingur sem meta hvert vafatilvik. Ég tel að það hafi verið mikilvæg réttarbót fyrir almenning þegar þessari nefnd var komið á fót. Slík vafatilvik fá þá sérstaka skoðun hverju sinni.