Ættleiðingar

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:27:14 (275)

2002-10-07 15:27:14# 128. lþ. 5.2 fundur 148#B ættleiðingar# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin. Ég geri mér glögga grein fyrir því að hér er um mjög viðkvæm mál að ræða. Hins vegar er þetta auðvitað hrapallegt óréttlæti í samfélaginu sé um hjón að ræða. Annar aðilinn er fullfrískur og hinn aðilinn hefur náð sér eftir erfið veikindi en þessir aðilar fá ekki að ættleiða börn.

Við erum fullgildir þjóðfélagsþegnar hvort heldur við höfum veikst eða ekki. Í svona tilfellum, ef konan gæti eignast barn á eðlilegan hátt, gæti auðvitað enginn bannað það. Við getum í raun ekki ákveðið, þrátt fyrir tæknina, hvort við veikjumst eða ekki eða hvenær við deyjum. Mér finnst því full ástæða til að vekja athygli á þessu máli. Eins og ég sagði áðan er hér um hróplegt óréttlæti að ræða sem mér finnst full ástæða til að breyta.