Ættleiðingar

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:28:25 (276)

2002-10-07 15:28:25# 128. lþ. 5.2 fundur 148#B ættleiðingar# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þm. að þetta getur virst ósannagjarnt. Það sem við verðum hins vegar að hafa í huga eru hagsmunir barnsins. Þeir eru ráðandi í þessum málum. Það eru sameiginlegar viðmiðunarreglur sem eru víðast í gildi, sérstaklega á Norðurlöndum. Sjálfsagt eru þessar grundvallarreglur víðast hvar við lýði í hinum vestræna heimi.

Það eru líka ýmsir alþjóðlegir samningar sem við þurfum að meta hverju sinni, t.d. Haag-samningurinn sem bindur okkur við það að uppfylla ákveðnar kröfur sem ýmis ríki gera. Þegar við erum að tala um ættleiðingar barna frá útlöndum þá setja flest lönd fram mjög ákveðnar kröfur sem við hér á Íslandi verðum hreinlega að fallast á og fara eftir til þess að geta viðhaldið slíku sambandi.

Ég vildi láta þetta koma skýrt fram en tek undir með hv. þm. að að öðru leyti geti þetta virst svolítið ósanngjarnt, sérstaklega þegar maður sér erfiðleika margra barna í heiminum.