Samþjöppun í útgerð og fiskvinnslu

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:29:57 (277)

2002-10-07 15:29:57# 128. lþ. 5.2 fundur 149#B samþjöppun í útgerð og fiskvinnslu# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Við höfum að undanförnu fylgst með fréttum af stóraukinni samþjöppun í útgerð og fiskvinnslu hér á landi, nú síðast með kaupum Eimskipafélagsins í Haraldi Böðvarssyni hf. á Akranesi. Það er ljóst að byggðarlögin og heimaaðilar missa nú hver af öðrum forræði yfir auðlindum sínum í hendur risafyrirtækja. Sjálfsforræði margra byggðarlaga og atvinnuöryggi er stefnt í aukna óvissu.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann deili ekki með mér áhyggjum af þeirri geigvænlegu samþjöppun sem er að verða í íslenskum sjávarútvegi, þeirri óvissu sem það skapar fyrir mörg byggðarlög ef þessi þróun heldur áfram. Reyndar er hún nú þegar orðin geigvænleg.

Hyggst hann beita sér fyrir aðgerðum til þess að snúa þessari þróun við og styrkja og efla þar með stöðu og öryggi byggðarlaganna vítt og breitt um landið? Mun hann beita sér fyrir aðgerðum í þá veruna? Ég held að það sé afar brýnt.