Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:56:37 (288)

2002-10-07 15:56:37# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:56]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Við höldum hér áfram að ræða þá till. til þál. sem þrír þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt á hinu háa Alþingi, sem er um það að athuga og kanna hverjar orsakir eru fyrir háu matvælaverði á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd og ríki Evrópusambandsins.

Út af fyrir sig hefur þetta verið mjög góð umræða sem hér hefur farið fram og ég hef bent á að við erum að ræða um samanburð á matvælaverði milli Norðurlanda og Evrópusambandsins og Íslands, og ég hef enn fremur bent á að við þingmenn Samfylkingarinnar erum líka í annarri þáltill. að fjalla um mismun á vöruverði milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, sem er ekki minni og ekki minni ástæða til að fara í gegnum og skoða. Ég kem að því síðar, herra forseti.

En auðvitað er það mjög skrýtið, eins og kemur fram í þeim töflum sem fylgja með þáltill. t.d. um verð á sjávarafurðum, að á árinu 2000 voru sjávarafurðir 12% dýrari hér á landi en í Evrópusambandslöndunum 15 sem tekin voru með í dæmið. Út af fyrir sig er e.t.v. ekki svo gott að bera þetta saman en þó vil ég vekja athygli á einu sem hefur komið fram í könnun sem Morgunblaðið gerði í tveimur verslunum á Spáni og Íslandi. Þetta er athugun frá því í apríl á þessu ári og leiddi í ljós að matarkarfan sem könnuð var var þrefalt dýrari á Íslandi en á Spáni og það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Fyrir þá sem hafa verslað á þessum stöðum í sumarfríum sínum þá sjá menn hvað það er.

En það vakti sérstaklega athygli mína í könnun Morgunblaðsins og í þeirri grein sem skrifuð var í framhaldi af henni að íslenskur saltfiskur er dýrari á Íslandi en á Spáni. Saltfiskur sem er framleiddur á Íslandi er dýrari á Íslandi en á Spáni, og það er sem sagt eftir að búið er að selja hann út, flytja hann með væntanlega íslenskum fraktskipum, keyra hann sennilega um Spán í járnbrautarlest, og kominn í verslun á Spáni er saltfiskurinn dýrari á Íslandi en á Spáni. Það er náttúrlega alveg sérstakt mál út af fyrir sig og vekur ótal spurningar.

Í greininni sem skrifuð var í Morgunblaðið kom fram að íslenskur saltfiskur á Spáni kostaði 654 kr. kg á sama tíma og íslenskur saltfiskur kostaði 958 kr. kg í Hagkaupum, sem er mjög hliðstæð þeirri verslun sem borin var saman við á Spáni.

Það er náttúrlega alveg einstakt að þetta skuli vera svona. Og það vekur auðvitað upp spurningar um verð á fiskafurðum hér á Íslandi úti í búð. Það er ansi sérstakt að eitt kíló af ýsu skuli kosta 1.100--1.200 kr. kg, að fiskur sem veiddur er hérna rétt fyrir utan jafnvel, kominn í búð skuli kosta 1.100--1.200 kr. kg. Mér er nú ekki kunnugt um, herra forseti, hvað svínahamborgarhryggur kostar í dag en ég efast um að hann sé mikið dýrari, að maður tali nú ekki um verð á hvítu kjöti.

[16:00]

Til þess að sýna fram á fáránleikann í verðlagningunni skilst mér að um tíma hafi lúðukílóið kostað yfir 2.000 kr. út úr búð á Íslandi. Og vel þekkt er góð saga af undirbúningi fermingarveislu þar sem hætt var við að hafa lúðu vegna þess að hún þótti svo dýr en svínahamborgarhryggurinn sem notaður var í veislunni kostaði ekki nema 1.200 kr. Lúðan átti á sama tíma að kosta 2.200 kr. Þetta sýnir náttúrlega fáránleikann.

Í þessari tillögu er gert ráð fyrir því, sem er aðalatriðið, að gripið verði til opinberra aðgerða við að skoða vöruverð og hvernig það þróast hér.

Vegna þess að ég minntist á tillögu sem við, aðrir þingmenn Samfylkingarinnar, höfum flutt um flutningskostnað innan lands ætla ég líka rétt í lokin að mótmæla því sérstaklega sem hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal, sagði í ræðu um þetta mál síðast þegar það var rætt. Hann fullyrti sömu vitleysuna og hæstv. forsrh. sagði í stefnuræðu sinni, hann sagði að flutningskostnaður á Íslandi hefði lækkað.

Þetta segi ég nú, herra forseti, í tilefni af þessari umræðu og því sem kemur fram í annarri þáltill. sem við, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, flytjum. Hún snýst um að kanna vöruverð og vöruverðsmyndun milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Þar kemur í ljós að það er vel þekkt að yfir 100% verðmismunur er á milli vöru sem er seld til verslunar á höfuðborgarsvæðinu og til smáverslana á ýmsum stöðum úti á landi, jafnvel í verslunum sem verslunarkeðjur á höfuðborgarsvæðinu reka, eins og Bónus. Hvað er það annað en flutningskostnaðurinn sem ræður þar stórum hluta, sérstaklega þungaskattshækkun og aðrar opinberar álögur frá hendi ríkisins á flutningskostnað? Það er sundurliðað í töflu í þessu þingskjali sem ég vitnaði til og við getum séð að flutningskostnaður frá Reykjavík og t.d. austur á norðausturhornið getur verið 30--35 kr. á kíló ef ég tek bara eitt dæmi, t.d. eitt kíló af kaffi eða eina fiskibolludós eða eitthvað svoleiðis. Ef þetta er flutt í litlum einingum getur kostað svona mikið að flytja það. Þetta er merkilegt.

Ég vil andmæla hér, herra forseti, að flutningskostnaður hafi lækkað. Þetta er vitleysa og þetta er hlutur sem við verðum að skoða líka, ekki síður en það sem hér er talað um, mun á Norðurlöndunum og Íslandi. Ég held að full ástæða sé til þess, herra forseti, og vitna ég enn í þessa þáltill. sem ég er flutningsmaður að ásamt mörgum öðrum. Hún fjallar um það að kanna áhrif þungaskatts og hvað það er sem lyftir vöruverði upp á landsbyggðinni sem raun ber vitni í samanburði við höfuðborgarsvæðið. Þar hika ég ekki við að halda því fram að flutningskostnaður ráði mjög miklu.

Þess vegna andmæli ég þeim fullyrðingum sem hér hafa komið fram, og ég vitnaði til áðan, um það að flutningskostnaður hafi lækkað. Það kannast enginn við. Og þess eru mörg dæmi að flutningskostnaðurinn sé töluvert hærri en verðið á vörunni sjálfri. Þess vegna segi ég að hann spilar auðvitað inn í verðið alveg eins og það er full ástæða til þess að ætla að hinn mikli flutningskostnaður vegi örugglega mjög þungt í hinu háa vöruverði sem við eigum við að etja á Íslandi, e.t.v. vegna lítillar samkeppni á vöruflutningi til landsins eða flutningi á hráefni til endurvinnslu hér.