Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:16:12 (293)

2002-10-07 16:16:12# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki misskilið neitt tilgang hv. þingmanns með þessum málflutningi sínum í þinginu síðustu daga. Það vita allir að tilgangurinn er sá að reyna að telja fólki trú um að það sé miklu eðlilegra fyrir okkur að ganga í Evrópusambandið því að þá mundu allar vörur á Íslandi lækka. Það er einmitt það sem var meiningin að koma á framfæri með þessum málflutningi. Það er augljóst að við þurfum ekki að deila mikið um tilganginn.

Við getum aftur á móti rætt lengi um það hvernig vöruverð á Íslandi hefur þróast og af hvaða ástæðum, hvaða áhrifavaldar það eru sem breyta vöruverðinu fram og til baka. Eins og ég sagði áðan beitti Sjálfstfl. sér fyrir því að skattar voru lækkaðir á fyrirtæki. Það er eitt af því sem hefur væntanlega áhrif á verðlagningu vöru og þjónustu.

Menn hafa með ýmsu móti reynt að lækka vöruverð. Það er ekki langt síðan Alþfl. sálugi beitti sér fyrir því að hér var lagður á matarskattur upp á 24,5%. Eftir að Alþfl. hætti í ríkisstjórn var þessi matarskattur lækkaður þannig að matvöruverð hefur lækkað líka af þeim ástæðum. Ef við förum að rifja upp söguna má benda á ýmsar augljósar vísbendingar um að af hálfu Sjálfstfl. hefur ekki staðið á að reyna að halda þannig á spilunum að verð á matvöru á Íslandi sé með því lægsta sem þekkist.