Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:18:24 (294)

2002-10-07 16:18:24# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:18]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst ræða hv. þm. Kristjáns Pálssonar alveg með ólíkindum, að ég tali ekki um andsvörin þar sem mér finnst einhvern veginn eins og hv. þm. sé rétt að koma í salinn og átta sig á hvað við erum að ræða hér. Hv. þm. sagði í fyrri ræðu sinni áðan að vöruverð hefði stórlækkað úti á landi, lækkað gríðarlega. Þetta er bæði rétt og rangt. Það er rétt að vöruverð hefur lækkað á nokkrum stöðum úti á landi þar sem stórmarkaðir hafa sett sig niður. Það er þekkt að vöruverð í t.d. Bónus, sama hvort verslunin er á Smáratorgi, Ísafirði eða Akureyri, er það sama. Það fyrirtæki heldur í raun og veru uppi ákveðinni flutningsjöfnun. En þar fyrir utan held ég að þetta sé ekki rétt. Við þekkjum mun á vöruverði sem getur verið frá 60% og upp í 108% eins og ég hef rætt um áður. Við þekkjum það á algengum vörutegundum, bæði innfluttum og framleiddum hér á landi. Ef við förum vítt og breitt um landið sjáum við þennan mun þannig að það er út í hött, hæstv. forseti, að fullyrða að vöruverð hafi lækkað án þess að taka fram að það er bara á nokkrum stöðum. Það eru mjög margir staðir á landsbyggðinni sem búa við gríðarlega hátt vöruverð og þar vegur flutningskostnaðurinn, sem sjálfstæðismenn hafa verið í broddi fylkingar með að hækka, mjög þungt eins og áður hefur komið hér fram.

Herra forseti. Ég vil andmæla því og mótmæla þeirri fullyrðingu sem hér er reynt að setja fram. Ég bið bara fólk af landsbyggðinni að dæma sjálft. Það er fullfært um það, þekkir vöruverðið sem því er boðið og það þekkir líka og veit hvernig þetta er annars staðar.