Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:20:39 (295)

2002-10-07 16:20:39# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:20]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagðist halda að vöruverð væri einungis jafnað hjá Bónus þar sem sú keðja væri, og væri sama verð hjá Bónus úti á landi og hjá Bónus á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að Samkaup séu með sama vöruverð um allt land. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með könnun hérna fyrir framan mig frekar en hv. þm. Kristján Möller. Hagkaup hefur sett sig niður á suðvesturhorninu öllu og einhvern tíma var það líka á Akureyri.

Þegar við tölum um örfáa staði erum við að tala um helstu staði í hverjum landshluta. Við getum verið að tala um Ísafjörð, Akureyri, Egilsstaði, Selfoss og Vestmannaeyjar. Við erum að tala um allmarga staði, þá staði sem landsbyggðarfólk leitar yfirleitt til um þjónustu, hefur tækifæri til að versla í þegar það er í kaupstaðarferð. Það er nákvæmlega það sama og fólk þarf að gera í nágrannabyggðum. Sunnlendingar fóru í ákveðnar verslunarferðir á höfuðborgarsvæðið um tíma. Þetta hefur gerst alls staðar þangað til menn hafa getað dregið til sín þessar stóru verslanir á ákveðna staði. Það styrkir náttúrlega byggð á þessum svæðum. Við megum ekki gera lítið úr því sem hefur náðst fram með samtakamættinum. Allmargir hafa lagt hönd á plóg til að reyna að fá þessa aðila til að hjálpa sér að lækka vöruverð, þingmenn og sveitarstjórnarmenn og fólkið í þessum plássum, og það skiptir máli. Ég held að ekki sé neitt óeðlilegt við þann málflutning sem hér hefur verið hafður uppi um þessi mál.