Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:22:55 (296)

2002-10-07 16:22:55# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:22]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Hér er talað af fullkominni vanþekkingu á högum landsbyggðarbúa, bæði hvað varðar vöruverð og eins um verslunarhætti. Ég vil benda hv. þingmanni á að kíkja á þskj. 18 sem verður vonandi rætt næstu daga, um vöruverð á landsbyggðinni þar sem hægt er að sjá nýlega könnun.

Eins og hér er talað opinberast líka fullkomin vanþekking á því hvar íbúar á landsbyggðinni geta verslað, t.d. á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum o.s.frv. Ég segi, herra forseti, að þarna er talað af vanþekkingu og ég stend við það orð. Ætlar hv. þm. t.d. íbúum Raufarhafnar, Þórshafnar og Vopnafjarðar að aka í hvert skipti til Akureyrar til matarinnkaupa? Gerir hv. þm. sér ekki grein fyrir að á þessum stöðum eru reknar verslanir sem þjóna viðkomandi byggðarlögum en þær verslanir sitja engan veginn við sama borð til vöruinnkaupa og verslanir annars staðar. Hvers vegna? Vegna flutningskostnaðar að stærstum hluta.

Gerir hv. þm. sér grein fyrir því að það kostar 30--35 kr. á kíló að flytja vörur frá höfuðborgarsvæðinu og t.d. á þessa staði sem ég nefndi? Hvert fer þessi flutningskostnaður annað en þráðbeint út í verðlagið?

Það er alveg rétt að það er hægt að afgreiða hlutina með því að segja að íbúar þessara og hinna staða skuli bara nota hinar miklu ,,þjóðbrautir`` og ,,hraðbrautir`` --- sem þarna eru sem sumar hverjar ætti ekki einu sinni að kalla vegi --- að ætla fólki að aka nokkur hundruð kílómetra leið til að komast í eðlilegt vöruverð. Ég segi, herra forseti, að umræðan á auðvitað að snúast um hvernig hægt er að jafna vöruverð á þessum smástöðum þannig að íbúar sitji við sama borð og annars staðar á landinu.