Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:27:35 (298)

2002-10-07 16:27:35# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:27]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa afbragðsgóðu og að mestu leyti málefnalegu umræðu. Mjög margir hafa tekið þátt í henni og dregið fram ólík sjónarmið. Og það er samhljómur með þingmönnum um að matarverð er hátt hér enda er þetta mál stutt rökum þar að lútandi, og þau rök er að fá frá Hagstofu Íslands, fyrst og fremst í svari frá hæstv. forsrh. sl. vor.

Það ber að fá úr því skorið hvað veldur þessu háa matarverði og síðan að skoða hvað hægt er að gera og hvaða vilji er til að breyta því.

Hins vegar verð ég að segja að líka hafa komið fram mjög annarleg sjónarmið varðandi þessi mál í umræðunni, svo sem eins og þegar reynt er að halda því fram að þetta sé viðunandi eða að við, sem Íslendingar, eigum að láta yfir okkur ganga að hafa hærra matarverð ,,af því``-eitthvað. En þetta mál snýst um lífskjör og okkur ber að skoða lífskjör á Íslandi samanborið við næstu nágrannalönd. Ég beini sjónum að samanburði við Norðurlöndin.

Það er líka athyglisvert og hefur komið fram í umræðum sl. viku --- ég vakti athygli á því í inngangi --- að tvennt ber hæst í útgjöldum heimilanna, háan húsnæðiskostnað og hátt matarverð. Þetta eru mjög þýðingarmiklir þættir í högum fjölskyldunnar. En ég hef líka bent á annað í umræðunni. Tökum ungt fólk sem við segjum frá þekkingarsamfélaginu. Við tölum um að gera ungu fólki kleift að mennta sig til þess sem hugurinn stendur til, við bendum á að veröldin öll er orðin einn vinnumarkaður og að ungt framsækið fólk frá Íslandi geti farið hvert sem er til starfa og sé samkeppnisfært. En við viljum fá ungt fólk hingað heim til að byggja upp gott samfélag hér og taka þátt í því sem fram undan er hér, njóta þekkingarinnar. Hver er þá staðan? Ungt fólk fer út til að mennta sig. Hér eru lakari kjör en á öllum Norðurlöndunum hvað varðar stuðning við námsmenn. Fólkið kemur svo --- vonandi --- heim og hvað bíður þess þá? Miklu þyngri og erfiðari húsnæðismarkaður en nokkurs staðar annars staðar, m.a. mjög vanþróaður leigumarkaður og há húsaleiga. Ef fólk er komið með börn og heimili, hvað blasir þá við? Ofboðslega hár matarkostnaður. Við erum að tala um lífskjaraþróun og vilja til þess að skoða hvað við getum haft og gert öðruvísi.

[16:30]

Ég held að hver og einn sem skoðar þessi mál hljóti að spyrja sig hvað valdi því að Ísland og Noregur búa við svo hátt matarverð en aðrir ekki. Að hluta til hefur virðisaukaskattur átt þátt í háu matarverði í Noregi. Noregur var með jafnháan virðisaukaskatt og Danmörk. Munum það að Danmörk er með 25% virðisaukaskatt en þar er samt miklu lægra matarverð en hjá okkur. Önnur lönd eru með 12% og Norðmenn eru nú búnir að lækka skattinn hjá sér niður í 12% til að lækka matarverðið.

Ég hef, herra forseti, óskað eftir því að kannaðar verði orsakir mismunandi matvælaverðs á Norðurlöndum, að fram fari nákvæmur samanburður á matvöruframleiðslu og verslunarháttum. Ég hef kallað eftir að fram fari samanburður á skilyrðum sem matvælaframleiðslu og matvöruverslun er búin og hvort ólík tenging Norðurlanda við Evrópusambandið hafi áhrif á mismunandi þróun matvælaverðs í löndunum. Ég hef áhuga á að vita það. Það er ekki vegna þess að ég sé búin að ákveða að ganga skuli í Evrópusambandið. Að þessu hef ég unnið síðan sl. vetur.

Jafnframt er hér tillaga um að skoða reglulega matarverð á Íslandi samanborið við Norðurlöndin og Evrópusambandið. Hvers vegna? Vegna þess að allar samanburðarkannanir sem við höfum oft verið að taka þátt í byggjast á samanburði við meðaltalsverð á Norðurlöndum.

En af hverju er ég að flytja þessa tillögu? Það er vegna þess sem fram kom í svari hæstv. forsrh. í fyrra. Ég óskaði eftir því að ef veruleg frávik væru í þróun vísitölu milli landanna, Norðurlandanna, þá yrði grafist fyrir um ástæður þess. Er skýringa að leita í mismunandi tengslum ríkjanna við Evrópusambandið? Eru það mismunandi framleiðslu- og verslunarhættir eða sérstakar verndaraðgerðir í þágu innlendrar framleiðslu í þessum löndum?

Í svarinu segir:

,,Ekki eru tök á að ráðast í nákvæman samanburð á matvöruframleiðslu og verslunarháttum á Norðurlöndunum, né þeim skilyrðum sem þeim greinum sem hér um ræðir, þ.e. matvælaframleiðslu og matvöruverslun, eru búin í hverju landi um sig.``

Þetta er eðlilegt að fram komi í svari við fyrirspurn um þróun vísitölunnar. Þegar ég fór að kanna hvaða upplýsingar lægju fyrir, þá lágu þessar upplýsingar ekki fyrir. Menn skulu gera sér grein fyrir því að hæstv. forsrh., jafnönugur og hann er gagnvart öllum málum þar sem Evrópusambandið er nefnt --- meira að segja ef talað er um samanburð á verði matvæla í 15 löndum Evrópusambandsins er það nóg til að kveikja ólundina og fýluna í viðbrögðum --- hefur samt sagt, herra forseti, í viðtali um helgina að matvöruverð hefði ekkert með Evrópusambandið að gera og segir um Samfylkinguna, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þess vegna finnst mér að þessir aðilar eigi að segja okkur með hvaða hætti þeir vilja lækka matvöruverð. Við munum aldrei ná því niður í það sem gerist á Suður-Ítalíu, Suður-Spáni, Grikklandi og öðrum slíkum löndum sem lækka þetta meðaltal.``

Við þessu segi ég að það er ólíklegt að verðið lækki svo mikið. Það held ég að engum detti í hug. En það er hugsanlegt að við gætum náð því niður í svipað verð og í Finnlandi, Þýskalandi og Svíþjóð. Á sama tíma og Finnland hefur náð matarverði í sumum vöruflokkum niður fyrir meðaltal í Evrópusambandslöndunum hefur orðið 30% kaupmáttaraukning í Finnlandi, eftir efnahagslægð sem var hjá þeim. Það er bent á 25% kaupmáttaraukningu á nokkurra ára tímabili hjá okkur. Við erum líka búin að fara í gegnum efnahagslægð. En matvöruverðið er allt annað.

Enn eitt, herra forseti. Forsrh. segir hins vegar sjálfsagt að rannsaka verðmyndun á matvöru og segist vilja sjá um hvað þetta snýst og hvað menn vilji gera í því, t.d. Samfylkingin. Þetta ítrekaði hæstv. forsrh. í svari sínu til Jóhönnu Sigurðardóttur um annað mál í óundirbúnum fyrirspurnum í dag. Þetta er það sem skiptir máli. Við verðum, sem hann tekur undir að þurfi að gera, að rannsaka verðmyndunina eins og ég er að leggja til. Þegar það liggur fyrir þá vitum við og getum skoðað hvað vilji er til að gera. Ég get ímyndað mér að mat Samfylkingarinnar verði annað og e.t.v. verði tillögur hennar um breytingar, komist hún í ríkisstjórn, aðrar en hjá Sjálfstfl. Stefna og viðmið flokkanna eru það ólík. Það á hins vegar eftir að koma í ljós.

Hér hefur verið talað um ýmislegt og ég minni á það sem fram kom í máli Margrétar Frímannsdóttur fyrir helgi þegar hún vitnaði í plagg frá bændum í nautakjötsframleiðslu. Þeir bentu á að þegar miðað væri við hvað kæmi til bænda, miðað við 280 kg skrokk og nær 69% nýtingu, þá fara 86 þús. til bóndans. Verðið fyrir allt er síðan 234 þús. kr. Þá get ég spurt: Ætli slátrun og vinnslu séu búin önnur skilyrði hjá okkur en í þessum þremur Norðurlöndum? Við vitum það ekki. Fyrst er að kanna það. Er það smásöluheimildin? Er þar eitthvað óhóflega farið með? Er virðisaukaskatturinn jafnlágur hjá okkur og löndunum þremur?

Út af orðum hv. þm. Kristjáns Pálssonar hér áðan vil ég segja að mér fannst ósæmilegast í málflutningi hans þegar hann reyndi að gera málflutning minn í þessu máli tortryggilegan með því að benda á að í upphafi síðasta áratugar hafi Alþfl. viljað leggja á matarskatt. Alþfl. og Sjálfstfl. unnu saman í ríkisstjórn að því að breyta söluskattskerfinu sem var orðið mjög götótt. Flokkarnir komust að þeirri niðurstöðu að taka upp virðisaukaskatt. Fyrst hugsuðu menn með sér að notast mætti við sömu aðferð og Danir hafa, Danir sem eru með miklu lægra matarverð en við en eru með fullan virðisaukaskatt á þessari matvöru og koma til móts við barnafjölskyldur með öðrum aðgerðum. Niðurstaðan varð að gera það ekki heldur lækka virðisaukaskatt á matvælum í 14%. Þetta var fyrir meira en 10 árum síðan. Þetta varð niðurstaða þessara tveggja flokka í ríkisstjórn. Hvað mér fannst um það er aukaatriði. Hvort mér fannst það góður kostur eða ekki, sem kom í þeirri stjórnartillögu að hafa 25% virðisaukaskatt á öllu sem aðgerð gegn undandrætti og öðru slíku, er alveg sér mál. Það kemur þessu máli bara ekkert við. Niðurstaðan var að hafa lægri skatt á matvörum og ég veit ekki annað en að full sátt hafi verið um það síðan.

Herra forseti. Samhliða jákvæðum undirtektum hjá hæstv. forsrh. í viðtali sem ég var að vitna til um að skoða þetta mál segir hann að þetta hafi ekkert með Evrópusambandsaðild að gera. Ég undirstrika það jafnframt að þingmálið mitt snýst ekki um Evrópusambandið. En auðvitað gæti það haft með matarverð að gera velji eitthvert land að ganga til liðs við Evrópusambandið. Það er a.m.k. ljóst að það gerðist í Finnlandi. Í Finnlandi ákváðu bændur að þeir vildu fara í Evrópusambandið af því að þeir sögðu að þrýstingur og breytingar á vegum Alþjóðaviðskiptaskrifstofunnar væru þess eðlis gera mætti ráð fyrir enn meiri þrýstingi á að opna landamæri og opna markaði. Þeir töldu að miðað við skilyrðin og verndina í Evrópusambandinu vildu þeir heldur þangað inn. Þetta voru viðhorf þeirra. Ég er ekki að gera þeirra viðhorf að mínum. En auðvitað getur matarverð og breytingar á því tengst aðild að Evrópusambandinu. Þetta þingmál er um samanburð á milli Norðurlandanna. Ef við ætlum ekki í Evróupusambandið, sem mér heyrist ekki síst niðurstaða Sjálfstfl., þá er það svo að ef Sjálfstfl. ætlar að bjóða þegnum sínum hið sama og önnur Norðurlönd þá verður hann að vita hvar skóinn kreppir til að geta breytt ástandinu. Það hefur forsrh. mjög oft gert í umræðunni. Hann hefur sagt: Við getum gert þetta allt sjálf. Það er rétt. Ef við ákveðum að standa utan Evrópusambandsins, allir flokkar, þá held ég að Samfylkingin muni velja að taka á þessum málum sjálf heima með þeim aðgerðum sem eru færar þegar vandamálið er þekkt.

Annað, herra forseti, ætla ég að nefna. Matarverð er gífurlega mikilvægt vegna þess að það er inni í neysluvísitölunni. Eftir 11. sept. hækkaði neysluvísitalan t.d. meira en menn bjuggust við. Af hverju var það? Það er af því að matvaran hækkaði meira en menn höfðu átt von á. Hækkunin á neysluvísitölunni, sem m.a. hefur áhrif á lánin okkar og vísitölu þeirra var vegna matvöruverðs. Það skiptir því máli fyrir afkomu heimilanna og lífskjörin í landinu hvert matarverðið er og hvernig við getum haldið utan um það, hvernig við höldum utan um neysluvísitöluna þannig að hún fari ekki úr böndunum. Frá 1995 hefur neysluvísitalan verið notuð til að mæla verðtryggingu sparifjár og lánin.

Annað vil ég nefna sem fram kom við þessa umræðu. Mig langar að svara Steingrími J. Sigfússyni sem var að velta því fyrir sér hvort ekki hefði orðið mikill munur á matarverðinu á árinu 2001 vegna þess að þá varð mikil gengisbreyting. Því er til að svara að í þessum PPP-samanburði sem við tökum þátt í, sem snýr að 550 vörueiningum og mörgum tegundum hverrar einingar á þriggja ára könnunarfasa og 1/3 á hverju ári, er búið til hlutfallslegt verðlag, eins konar nýtt gengi með jafnvirðisbreytingu. Notast er við hlutfall á milli þess gengis og gengis krónunnar. Allt er gert til þess að reyna að ná hlutfallslegum samanburði milli landanna. Ég hef sagt frá því fyrr við þessa umræðu að á milli áranna 1999 og 2001 fórum við í þessu hlutfallslega verðlagi úr 153 í 154, sem var minna en munurinn í Noregi. Noregur var að skauta upp fyrir okkur núna, ekki það að við værum að lækka svo mikið heldur fór Noregur úr 151 í 172. Hann er mjög faglega unninn, þessi Eurostat-samanburður sem norska hagstofan byggir á og tölurnar frá rannsóknastofnun landbúnaðarins í Noregi eru byggðar á tölum Eurostat sem ég hef mikið rætt um við Hagstofuna.

Aðeins í lokin, herra forseti, af því að það er alltaf verið að tala um verð í Suður-Evrópu og hvort við ætlum að ná því sama. Nei, við munum ekki gera það. En við skulum hugsa um það sem hv. þm. Kristján Möller nefndi hérna áðan varðandi saltfiskinn. Lax er einnig miklu ódýrari á Spáni en hér. Hann kostar helmingi meira hér. Ef við færum nú að bera saman kjúklingaverð, þá er það 178 kr. á Spáni en 655 kr. á Íslandi. En við erum ekki að bera þetta saman. Við erum að bera saman Norðurlöndin og gera ljóst að við getum með breytingum hér heima komið verðinu niður í það sem norrænum íbúum býðst.