Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:49:00 (302)

2002-10-07 16:49:00# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:49]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega ánægð með að niðurstaða þeirrar umræðu sem farið hefur hér fram á tveimur þingdögum, tveimur af þremur fyrstu þingdögum þessa nýsetta þings, er að menn eru sammála um að leita skýringa á hinu háa matarverði. Ég lít svo á að ég megi gera ráð fyrir því að menn muni sameinast um að afgreiða þá tillögu sem hér er flutt sem fyrsta þingmál Samfylkingarinnar á fyrsta þingdegi úr nefnd og legg það til, hæstv. forseti, að málunum tveimur sem ég hef mælt fyrir verði vísað til allshn. Ég lít svo á að jákvæðar undirtektir forsrh. þýði að þetta mál muni frá brautargengi.

Ég hlýt hins vegar að vekja athygli á því að það er ekki svo að við höfum nýtt öll tækifæri sem við höfum haft til þess að hafa áhrif á matarverðið. Hér fór fram heit umræða á fimmtudaginn og hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á Samkeppnisstofnun og notaði tækifærið í þeirri umræðu til að senda henni tóninn. Það er nefnilega þannig að við getum gert Samkeppnisstofnun að miklu tæki varðandi alla samkeppni á matvörumarkaði, en við höfum ekki gefið henni öll tæki sem henni væri þarft að hafa og þess vegna er ekki hægt að segja að menn hafi verið að gera það sem hægt að gera. Við eigum eftir að taka á þessu máli. Önnur lönd hafa tekið á því með ýmsu móti og tækifæri gefst þegar sú úttekt liggur fyrir sem hér hefur verið mælt fyrir að fram skuli fara. Ég þakka ágæta umræðu.