Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:54:50 (304)

2002-10-07 16:54:50# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:54]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir þessar jákvæðu undirtektir og þau sjónarmið sem hann kom með inn í þessa umræðu. Þetta er afar mikilvæg umræða og þetta er afskaplega stór þáttur í kjörum fjölskyldnanna. Ég er mjög bjartsýn eftir þessa umræðu að samstaða verði um að láta könnun á orsökum hins háa matvælaverðs fara fram og að við eigum þá möguleika á því eftir að það hefur gerst, á nýju þingi að afloknum kosningum, að sýna hvers við erum megnug og hver vilji er til þess að grípa til þeirra aðgerða sem þarf.

En við skulum líka muna það af því að í umræðunni hefur talsvert verið talað um fákeppni, og við skulum þá heldur ekki gleyma því að samkeppni hefur verið að minnka á mörgum sviðum eins og t.d. í vöruflutningunum, að þegar við tölum um fákeppni í versluninni og að bregðast verði við henni ef hún hefur orðið orsakavaldur í því að vöruverð lækkar ekki þegar það lækkar annars staðar, þá verðum við líka jafnframt að gera Samkeppnisstofnun kleift að bregðast við með öllum tiltækum hætti. Ég þakka þessa umræðu.