Útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:58:09 (305)

2002-10-07 16:58:09# 128. lþ. 5.7 fundur 6. mál: #A útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl# þál., Flm. GuðjG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:58]

Flm. (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta gera á vegum Ríkisútvarpsins áætlun um kostnað og tæknilega útfærslu á því að senda dagskrár útvarps og sjónvarps um gervitungl, svo og kostnað við búnað til að taka á móti þessum sendingum. Einnig komi fram áætlaður stofnkostnaður jarðstöðvar til að senda dagskrár til gervitungls og árlegur rekstrarkostnaður hennar.``

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, Halldór Blöndal, Drífa Hjartardóttir og Einar K. Guðfinnsson.

Það er svo að mörg þúsund Íslendingar búa við þau skilyrði að hafa lélegan eða engan aðgang að útsendingum Ríkisútvarpsins, einkum sjónvarpsins en einnig í nokkrum mæli útvarpsins. Það á við um fólk í dreifðum byggðum landsins, þar sem móttökuskilyrði eru slæm, og Íslendinga erlendis, en stærsti hópurinn er sjómenn á farskipum og fiskiskipum. Móttökuskilyrði sjónvarps hafa verið mjög misjöfn á hafinu umhverfis landið. Þau hafa verið allgóð frá Faxaflóa austur að Ingólfshöfða, afleit út af Austurlandi og gloppótt fyrir Norðurlandi, Vestfjörðum og suður fyrir Snæfellsjökul. Skilyrðin eru skárri þegar háþrýstisvæði er yfir landinu. Sjómenn segja að móttökuskilyrðin hafi versnað á undanförnum árum.

Móttökuskilyrði útvarps eru einnig misjöfn en bötnuðu mjög á hafinu með tilkomu langbylgjusendinga frá Gufuskálum og Eiðum, en um sendana þar er útvarpað blandaðri dagskrá Rásar 1 og Rásar 2. Þessar sendingar nást allt til Færeyja, eða u.þ.b. 500 sjómílur. Í sparnaðarskyni hafa langbylgjusendingar nýlega verið skertar og stuttbylgjusendingar aflagðar, en þær náðust um allan heim.

[17:00]

Það er mikið öryggismál að bæta sendingar ljósvakamiðlanna til fiskimiða og farskipaleiða, t.d. til að fylgjast með aðvörunum um hættu, svo sem fárviðrisspám og tilkynningum um ís. Bent hefur verið á að engin veðurspá er gerð nema á Íslandi fyrir siglingaleiðina Bandaríkin--Nýfundnaland--Ísland.

Það er skoðun flutningsmanna að meðan ríkið stendur fyrir rekstri sjónvarps og útvarps og skyldar lansmenn til að greiða afnotagjöld, verði að leita allra leiða til að koma sendingum þessara fjölmiðla til sem flestra Íslendinga.

Árið 1995 samþykkti Alþingi þáltill. sem ég flutti um athugun á þeim kostum sem í boði væru til að bæta útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiðanna við landið. Í framhaldi af því fékk menntmrn. greinargerð um þessi mál frá útvarpsstjóra. Þar kom fram hverjir möguleikarnir væru á að bæta þessar útsendingar og hvað það mundi kosta. Þar kom fram að stækkun dreifikerfis sjónvarps svo það næði út á fiskimiðin væri gríðarlega dýr, eða allt að 850 millj. kr. á verðlagi þess árs. Þá var tækniþróun ekki talin komin á það stig að sjónvarpssendingar um gervihnött væru vænlegur kostur. Á þeim árum sem síðan eru liðin hefur notkun gervihnatta aukist mjög og kostnaður því lækkað. Þess má geta að norska sjónvarpið sendir efni sitt til fiskimiðanna gegnum gervihnött.

Með slíkum sendingum gæti íslenska sjónvarpið slegið tvær flugur í einu höggi, sent efni sitt til þúsunda sjómanna sem stunda störf sín á þeim hafslóðum þar sem útsendingar nást ekki í dag og jafnframt til þeirra staða á landinu sem búa við óviðunandi móttökuskilyrði sem eru því miður víða á landsbyggðinni.

Árið 1999 lagði ég fram fyrirspurn hér á Alþingi þar sem ég spurði hver yrði stofnkostnaður og árlegur rekstrarkostnaður við að senda dagskrár útvarps og sjónvarps um gervitungl til fiskimiðanna umhverfis Ísland og þeirra staða á landinu þar sem móttökuskilyrði eru óviðunandi. Í svari hæstv. menntmrh. kom fram að kostnaður við samsendingar sjónvarps- og útvarpsdagskrár um gervitungl mundi vera á bilinu 60--80 millj. kr. á ári og stofnkostnaður við jarðstöð til sendinga dagskrár um gervitungl væri um 10 milljónir. Þar kom jafnframt fram að sérstakan móttökubúnað þyrfti til að taka á móti þessum sendingum. Fyrir skip þyrfti búnaðurinn að vera stefnuvirkur, óháður veltingi og stefnu skipsins og kostaði um 2 millj. kr., en á landi þyrfti búnað sem kostaði 120--200 þús. kr.

Í svari hæstv. menntmrh. kom jafnframt fram að gjörbylting hefði orðið í tæknibúnaði á þessu sviði á árunum 1995--1999 og að þær kostnaðartölur sem fram komu í svari hans og þær hugmyndir sem menn hefðu um hlutverk gervitungla við miðlun á sjónvarpsefni væru þess eðlis að þennan kost bæri að skoða af fullri alvöru. Auk þess væri ljóst að kostnaður við slíkar sendingar mundi frekar lækka en hækka.

Í greinargerð Boga Ágústssonar til útvarpsstjóra frá 20. nóv. 1998 kemur fram að heppilegustu gervitungl til sendinga til Íslands og miða umhverfis landið væru Intelsat 707 eða Thor II, en bæði þessi gervitungl eru rekin af norska símafyrirtækinu Telenor. Þar kemur einnig fram að sendingar frá þessum gervitunglum næðu til allra fiskimiða umhverfis Ísland, en mundu ekki gagnast á fjarlægari miðum, svo sem í Smugunni, því hún liggur utan geisla fyrrnefndra gervitungla.

Þá segir í greinargerð Boga Ágústssonar að slíkar sendingar mundu jafnframt nýtast Ríkisútvarpinu að nokkru leyti til stofndreifingar innan lands og að einstöku bæir sem ekki njóta útsendingar Ríkisútvarpsins nú mundu geta tekið við útsendingum beint frá gervitungli.

Nú eru liðin tæp þrjú ár síðan þessar upplýsingar komu fram hér á Alþingi og vonandi hefur kostnaður lækkað eins og hæstv. ráðherra spáði í svari sínu. Þess vegna finnst okkur flutningsmönnum þessarar tillögu tímabært að fá fram nákvæma áætlun um kostnað og tæknilega útfærslu á því að senda dagskrár útvarps og sjónvarps um gervitungl. Hafi þessi kostnaður enn lækkað eins og spáð var fyrir þremur árum, er þetta orðið vel viðráðanlegt og ég ítreka að meðan við búum við skylduáskrift að Ríkisútvarpinu verður að leita allra leiða til að koma sendingum þess til sem flestra Íslendinga. Vænlegasta leiðin til þess er tvímælalaust útsendingar um gervitungl. Sendingar frá landi eru varla raunhæfar og vísa ég þar aftur til greinargerðar Boga Ágústssonar til útvarpsstjóra 20. nóvember 1998, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Sjónvarpssendingar eru tæknilega mögulegar frá mastrinu á Gufuskálum. Slíkur sjónvarpssendir næði sirka 30 mílur frá landi í þær áttir sem sjónlína er. Hann mundi hins vegar ekki ná til miða út af Vestfjörðum. Fjárfestingarkostnaður yrði á bilinu 20--30 millj. og rekstrarkostnaður 2--3 millj. á ári.

Gera má ráð fyrir að þær tölur sem nefndar eru í greinargerðinni frá 8. desember 1995 hafi hækkað um sirka 10%, en það er þumalfingursáætlun. Mikið af kostnaði er í erlendri mynt og þó að ekki hafi orðið miklar breytingar á gengi, er einnig verðbólga í þeim löndum þar sem tækin yrðu keypt. Annar meginþáttur í kostnaði eru vinnulaun sem hafa hækkað meir en 10% á þeim þrem árum sem liðin eru frá útreikningnum.

Niðurstöður greinargerðarinnar eru annars í megindráttum:

1. Það er ómögulegt að ná til allra miða umhverfis Ísland með hefðbundnum sendum í landi.

2. Kostnaður við stækkun dreifikerfis sjónvarps svo unnt væri að senda sjónvarpsmerki 50--60 sjómílur á haf út yrði a.m.k. 850 millj. kr. Rekstrarkostnaður dreifikerfis sjónvarps mundi tvöfaldast. Þarna er miðað við að senda merkið eins langt og tæknilega er unnt.

3. Kostnaður við nýjar FM-stöðvar sem næðu 50--60 sjómílur á haf út yrði a.m.k. 650 millj. kr. fyrir hvora rás útvarps. Rekstrarkostnaður dreifikerfis útvarpsins mundi þrefaldast. Þarna er einnig miðað við að senda merkið eins langt og tæknilega er unnt.

4. Með því að setja upp senda þar sem ódýrast og auðveldast er og geta sent sjónvarpsmerki til 30--40% miða og FM-útvarp til 50% miða, yrði kostnaður a.m.k. 310 millj. fyrir sjónvarp og a.m.k. 64 millj. kr. fyrir hvora rás útvarpsins. Rekstrarkostnaður dreifikerfis sjónvarps ykist um 24 millj. og útvarps um 11 millj. fyrir hvora rás.

5. Miðað er við að viðtakendur noti besta mögulega viðtökubúnað.``

Tilvísun lýkur í greinargerð Boga Ágústssonar.

Af þessu má sjá að sjónvarpssendingar á haf úti eru vart raunhæfar frá landi og því telja flutningsmenn nauðsynlegt að kanna til hlítar möguleika þess að senda dagskrá útvarps og sjónvarps um gervitungl.

Ég legg til að þessari tillögu verði að lokinni fyrri umræðu vísað til síðari umræðu og hv. menntmn.