Útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 17:09:32 (307)

2002-10-07 17:09:32# 128. lþ. 5.7 fundur 6. mál: #A útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl# þál., Flm. GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[17:09]

Flm. (Guðjón Guðmundsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. góð orð í garð okkar tillögumanna. Þetta er náttúrlega eitt af því sem yrði væntanlega skoðað í þeirri athugun sem við óskum eftir að verði hrundið af stað. Ég hef nú reyndar ekki hugsað þetta út frá þessum vinkli. Ég hef fyrst og fremst verið að hugsa um sendingar til sjómanna á hafi úti og til þeirra staða á landinu sem eru afskekktir og ná ekki sendingunum í dag.

Það mun kosta talsvert að taka á móti þessum sendingum þannig að ég á nú satt að segja svona að óathuguðu máli ekki von á því að aðrir en þessir aðilar mundu leggja í þann kostnaði í fyrsta umgangi.

Það er alveg rétt sem hv. þm. segir að maður staddur erlendis getur náð fréttum í gegnum tölvu og reyndar gegnum GSM-síma. Það er til mikilla bóta. En ég held að þetta mál, að senda sjónvarpið til þeirra þúsunda sem ekki ná því í dag, fyrst og fremst náttúrlega sjómannanna á hafi úti, sé mikið réttlætismál, eins og ég sagði í ræðu minni, og að meðan Íslendingar eru skyldaðir til að borga áskrift að þessum ágæta miðli eigi þeir rétt á að fá þessa þjónustu ef það er nokkur möguleiki að veita hana. Mér sýnist á þeim tölum sem ég vitnaði í úr svari hæstv. menntmrn. á Alþingi 1999 að þetta sé mjög raunhæfur kostur. Þess vegna leggjum við til að þetta verði athugað mjög vandlega á næstunni.