Útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 17:20:03 (311)

2002-10-07 17:20:03# 128. lþ. 5.7 fundur 6. mál: #A útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl# þál., Flm. GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[17:20]

Flm. (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka þær jákvæðu undirtektir sem þetta tillögukorn okkar félaganna hefur fengið. Sérstaklega vil ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að vera við þessa umræðu og taka jafnjákvætt undir efni hennar og hann gerði í ræðu sinni. Það er auðvitað afskaplega mikilvægt að hæstv. ráðherra hafi áhuga á málinu og það kom berlega fram að svo er.

Eins og kom fram í ræðu minni hef ég verið að flytja þetta mál af og til síðan 1995 með einum eða öðrum hætti. Það hefur komið fram að kostnaður við að koma þessum sendingum á haf út og til hinna dreifðari byggða hefur hrunið á þessu tímabili og er kannski 1/10 eða 1/15 af því sem hann var fyrir 7 árum. Þess vegna förum við fram með þessa tillögu, við viljum láta skoða þetta alveg í botn. Og mér segir svo hugur að ekki sé langt í að útsendingar útvarps og sjónvarps um gervitungl verði að veruleika.

En ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem hér hafa talað, og sérstaklega hæstv. ráðherra fyrir mjög jákvæðar undirtektir.