Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:02:28 (319)

2002-10-08 14:02:28# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:02]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það stendur í þessari þáltill. að það eigi að stöðva einkavæðinguna. Þannig skildi ég akkúrat málflutninginn hér, þ.e. að það eigi að stöðva sölu opinberra fyrirtækja. Það þýðir um leið að menn fá ekki það fjármagn sem er ætlað til að bæta samgöngur um allt land á næstunni. Ef einhver kemur til með að fara illa út úr þessu þá er það landsbyggðin og þeir menn sem hafa áhuga á því að bæta samgöngur.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef ekki heyrt forsrh. lýsa því yfir að hann vilji stöðva einkavæðinguna eins og hún hefur verið. Aftur á móti hefur hæstv. forsrh. beðið um úttekt af hálfu Ríkisendurskoðunar og sú úttekt er í gangi. Ég hef ekki heyrt hæstv. forsrh. segja að hann vilji stöðva ferlið á meðan. Ef svo hefur verið þá þætti mér fróðlegt að vita hvar það hefur komið fram. Ég tel mig fylgjast sæmilega vel með í þessum málum.

Að sjálfsögðu er hægt að deila um það, herra forseti, hvernig að verkum er staðið. Einkavæðingarnefnd hefur starfað í mörg ár og ekki hafa komið fram neinar vísbedingar um að þar hafi verið óeðlilega að málum staðið fyrr en þetta bréf kemur frá Steingrími Ara Arasyni. Það varð að sjálfsögðu tilefni til þess að farið var að rannsaka málið.