Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:07:37 (322)

2002-10-08 14:07:37# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:07]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að dæma um hvort það sé eðlilegt vegna eins manns. En oft verða atvik til þess að menn verði tilbúnir til þess að staldra við og skoða sinn gang og við teljum einmitt kærkomið tækifæri í þessu máli núna, að menn endurskoði stöðu sína. Í raun hefur hæstv. forsrh. stigið skref í þá átt vegna þess að hann biður um úttekt Ríkisendurskoðunar á málinu. Af hverju gerir hann það? Hann gerir það væntanlega á grunni þessarar uppákomu með þennan eina mann. En ég býst við að hann geri það eflaust út frá öðrum sjónarhóli líka, eflaust. Við viljum bara leggja fram tillögu sem gengur enn þá lengra, þ.e. að mönnum gefist ráðrúm til þess að fara yfir allt þetta ferli og leggja niður fyrir sér nýjar leikreglur. Það er mjög eðlileg krafa á þessari stundu. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal veit þá er bullandi óánægja úti í þjóðfélaginu með hvernig staðið er að þessum málum, sérstaklega samþjöppun valds þar sem augljóslega er í gangi ferli sem gerir örfáum í þessu samfélagi mögulegt að raka til sín fé og komast yfir ríkiseignir sem eru til sölu. Mér er fullljóst að það er á grunni samþykkta stjórnarmeirihlutans hér í þinginu. Við erum andvíg þessari stefnu. Það vita allir. Við viljum ekki selja ríkiseignir. En við viljum aldeilis leiðbeina stjórnarmeirihlutanum hvernig hann geti framfylgt skynsamlega sinni voðalegu stefnu að okkar mati. Það er ekki gert í dag.