Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:09:31 (323)

2002-10-08 14:09:31# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svaraði ekki þeirri spurningu hvort eðlilegt væri að einn nefndarmaður í einkavæðingarnefnd sem ekki er kjörinn til þess af almenningi á Íslandi eigi að hafa meira vald en hv. Alþingi, sem er þó kjörið í alþingiskosningum til þess að fara með þessi mál, að einkavæða fyrirtæki á Íslandi. Ég tel svo ekki vera. Þessi maður á ekki að hafa þetta vald. Ég tel það mjög eðlilegt skref sem hæstv. forsrh. tók, að fela stofnun að skoða þessi mál en stöðva ekki ferlið.

Varðandi samþjöppun valds þá er einmitt verið að minnka samþjöppun því að samþjöppunin var öll í hendi ríkisins hér áður fyrr og það er nú aldeilis einn aðili sem fór með mikið vald yfir fjármálastofnununum. Þær eru ekki ófáar sögurnar af því sem gerðist á biðstofum bankastjóra og í herbergjum bankastjóra á þeim tíma þegar menn voru að beita þessu valdi sínu.