Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:27:38 (327)

2002-10-08 14:27:38# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:27]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. vera allt of reiður í þessari umræðu, vegna þess að þetta er ekki til þess að æsa sig út af, þetta er bara viðfangsefni að einkavæða og það er það sem allar þjóðir eru meira og minna að gera. Og ég minnist þess að hv. þm. var óskaplega glaður þegar Kínverjar gerðust aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og hafði mörg orð um það hvað það væri ánægjulegt að Kínverjar skyldu gerast aðilar. En málið er að Kínverjar gerast aðilar vegna þess að þeir eru að einkavæða. Þannig er nú þessi heimur og þannig er hjá þeim þjóðum sem hv. þm. hefur nú verið dálítið að bera sig saman við austarlega í Evrópu, að þær eru allar að einkavæða.

Auðvitað er hægt að deila um það hvernig síðan farið er í þetta og auðvitað er það háttur stjórnarandstöðunnar að koma hér og reyna að gera þetta mál allt saman tortryggilegt, þannig er nú lífið. En hvað varðar bankana t.d. þar sem ég kem fyrst og fremst við sögu og geri ég mér fulla grein fyrir því að stjórnarflokkarnir bera fulla ábyrgð á því máli, að þá finnst mér ekki sanngjarnt að tala um það að við seljum bara þeim sem við teljum að séu pólitískt þóknanlegir, vegna þess að þetta mál er allt saman opið, ferlið er galopið. Auglýst var eftir aðilum sem hefðu hugsanlega áhuga á að kaupa í Landsbankanum og Búnaðarbankanum og þar gáfu sig fram fimm aðilar. Þrír þeirra voru taldir vera með þannig erindi að ástæða væri til að tala frekar við þá. Einn þeirra er síðan valinn úr til viðræðna út af kaupum á Landsbankanum og það er gert vegna þess að alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki, HSBC í London, sem hafði verið ráðið til verksins, ráðleggur það, gefur þessu fyrirtæki hæstu einkunnina. Og þá fer ráðherranefnd um einkavæðingu að þeim tilmælum og núna er verið að tala við það fyrirtæki um hugsanleg kaup á Landsbankanum.

Mér finnst þetta vera opið ferli og mér finnst þetta vera samkvæmt reglum.