Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 14:36:40 (331)

2002-10-08 14:36:40# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[14:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tel að heppilegra hefði verið að niðurstaða Ríkisendurskoðunar hefði legið fyrir um þetta mál þegar tillaga þessi var tekin til umræðu. Ekki það að ég bindi óskaplega miklar vonir við þá skýrslu sem kemur. Vonandi kemur hún mér á óvart með því að í henni komi fram eðlileg og hörð gagnrýni á hvernig að þessum málum hefur verið staðið.

Hæstv. viðskrh. sagði að menn ættu ekki að æsa sig yfir málinu. Það hefur verið full ástæða til þess að æsa sig yfir ýmsum málum sem hafa verið í gangi á undanförnum árum hvað varðar einkavæðingu. Sum þeirra hafa verið nefnd í umræðunni en ástæðan fyrir því að þessi umræða er í gangi er auðvitað sú að einn af þeim sem lengst hefur starfað í einkavæðingarnefnd fékk allt í einu nóg og hætti, taldi sér nóg boðið og hafði aldrei upplifað annað eins. Maður veltir því þá fyrir sér hvað í ósköpunum hafi verið að gerast. Hvernig stendur á því að maður úr einkavæðingarnefnd, sem taldi allt í lagi að fara fram með þeim hætti sem gert var þegar SR-mjöl var selt og allur sá eftirleikur sem því fylgdi, skuli allt í einu hafa fengið nóg? Það er sannarlega ástæða til að bíða spenntur eftir því að vita hvað það var sem olli því að sá maður stóðst ekki mátið lengur. Mál SR-mjöls var með þeim endemum eins og lýst var hér áðan að fyrirtæki sem ríkið hafði átt í 63 ár og aldrei lagt peninga til var allt í einu selt fyrir smáaura og allt í einu þurfti ríkið að leggja peninga inn í fyrirtækið áður en það var selt. Fyrirtækið var komið í bullandi hagnað þegar það var selt.

Loðnuveiðar höfðu verið bannaðar í um tvö ár rétt á undan og fyrirtækið var auðvitað í erfiðleikum út af því. Það hafði búið til splunkunýja verksmiðju fyrir austan með alveg nýjustu aðferðum til þess að framleiða mjöl og farið var að selja það mjöl á mjög háu verði. Það var hagnaður í kassanum upp á 220 milljónir í reiðufé þegar nýir eigendur tóku við. Og hvernig var staðið að sölunni? 21. desember var auglýst að nú skyldi klára að selja fyrirtækið fyrir 28. desember. Fjórtán aðilar höfðu óskað eftir því að koma til greina í þeim kaupum. Þegar upp var staðið var öllum hafnað nema einum og m.a. var þeim sem var með hæsta tilboðið líka hafnað. Hann kærði reyndar þá málsmeðferð og ætlaði að fara í mál, sótti síðan um leyfi til að byggja síldarverksmiðju austur á landi. Það vildi þannig til að fyrirtæki þessa manns var í málaferlum við SR-mjöl út af öðrum hlutum sem það hafði haft með höndum fyrir SR-mjöl. Leyfið til þess að byggja verksmiðjuna fékkst ekki strax. En að lokum féll Haraldur í Andra frá málaferlum á hendur ríkinu. Um leið féll SR-mjöl frá málaferlum á hendur Haraldi í Andra og leyfið fékkst til að byggja verksmiðjuna fyrir austan. Þetta var allt saman tilviljun en þetta fór allt fram á sama deginum. Merkileg tilviljun. Það er slíkt sem þyrfti að rannsaka og ég óttast að Ríkisendurskoðun geri ekki. Það eru slíkir hlutir. Það er sú pólitíska spilling sem þarna er á ferðinni. Það er sú bullandi vanhæfni sem mönnum sem koma að þessum hlutum finnst allt í lagi, virðist vera, í þjóðfélaginu. Þeim sem voru í einkavæðingarnefnd fannst það bara í góðu lagi að kaupa þjónustuna af sjálfum sér og Sjálfstfl. finnst það líka í góðu lagi að framkvæmdastjóri Sjálfstfl. sitji í bankaráði Landsbankans og fjalli um það hvað eigi að gera við eigur Landsbankans á sama tíma og hann á stóran hlut í Landsbankanum og hlýtur að hafa verulegra eiginhagsmuna að gæta hvað það varðar hver fær að kaupa þetta fyrirtæki og hvernig farið er með aðrar eigur Landsbankans.

Ég ætla ekki að teygja lopann yfir því hvernig stjórnarflokkarnir eru að semja um þessi mál en það er auðvitað ekki í lagi að menn skuli telja að á því þurfi að halda að skipa sérstaka ráðherranefnd til þess að fara með einkavæðingarmálin í ríkisstjórninni, að ekki skuli vera hægt að gera það faglega heldur þurfi að semja um það í hrossakaupum sem fara fram við ríkisstjórnarborðið.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég skemmti mér nokkuð vel um daginn þegar fyrrv. seðlabankastjóri mætti í sjónvarpsþátt. Menn voru að spyrja hann út úr. Hann hafði bókstaflega aldrei heyrt annað eins. Hann vissi ekki til þess að það væri til neitt sem héti helmingaskipti. Hann taldi að þarna væri bara einhver misskilningur á ferðinni. Þjóðin horfði í forundran á þennan þátt. Þeir sem ég hef heyrt í og hlustuðu á þetta voru alveg hissa, því að þeir kunna þessa finnsku. Þeir vita alveg, þjóðin veit alveg um hvað þetta snýst. Þetta snýst um það að deila út völdum og eignum ríkisins í þessu tilfelli til þess að hafa pólitísk áhrif. Það er ekki sama hverjir kaupa. Hverjum skyldi hafa dottið í hug að það væri til hagsbóta til að fá hærra verð fyrir Landsbankann að ákveða allt í einu í miðju söluferlinu að selja eina af verðmætustu eignum bankans út? Halda menn að það hafi bara gerst í bankaráðinu? Halda menn virkilega að ekki hafi komið boð um það annars staðar frá? Ég held að ekki sé vafi á því að þannig hafi verið staðið að þeim málum. Ég held þess vegna að það sé hið besta mál að menn ræði um það hvort eigi að stöðva þetta einkavæðingarferli. Ég held hins vegar að fróðlegt væri að skýrsla Ríkisendurskoðunar lægi fyrir þannig að menn gætu séð hvort á þeim ágæta bæ sé talið eitthvað athugavert við það sem er um að vera.