Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 15:11:15 (338)

2002-10-08 15:11:15# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir jákvæðar undirtektir við þessari tillögu, alltént af hálfu þeirra sem hafa tekið þátt í umræðunni, en lýsi á sama tíma megnri óánægju með það að þeir ráðherrar sem málið varðar eru ekki viðstaddir umræðuna, hafa horfið á braut, og mjög fáir stjórnarþingmenn eru hér í sölum til að taka þátt í þessari umræðu. Ég hefði haldið að þetta væri kærkomið tækifæri fyrir stjórnarliða til að fara inn í almennar umræður um einkavæðingarferlið en svo virðist ekki vera.

Við höfum lýst því yfir hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að við viljum ekki sölu ríkisbankanna og teljum mjög mikilvægt að í eign þjóðarinnar sé a.m.k. einn banki. Við höfum sagt að það mætti vera hvort sem er Búnaðarbanki eða Landsbanki. Meginrökin fyrir því eru auðvitað þau að bankaþjónustan er stoðkerfisþjónusta sem á að vera aðgengileg öllum. Sannast sagna er það áhyggjuefni, eins og reyndar hefur komið fram í þinginu, að það eru fleiri og fleiri fyrirtæki fjarri höfuðborgarsvæðinu sem lenda í vandræðum með fyrirgreiðslu í bönkunum vegna þess að þau eru ekki innan þess áhrifasvæðis sem bankarnir kjósa að starfa á vegna undirbúningsferlis til einkavæðingar. Þetta er mjög uggvænleg þróun og menn í atvinnulífinu úti um allt land hafa stórar áhyggjur af þessu.

Ég skil ekki hvernig hv. þm. stjórnarinnar geta keyrt einkavæðingarferlið áfram í bankaþjónustunni og fullyrt að bankarnir séu betur komnir í höndum einkareksturs en í opinberum rekstri þegar það liggur fyrir á sama tíma að við tökum t.d. á Norðurlandi þátt í alls konar bankaþjónustu á heimsmælikvarða sem hefur það markmið að gæta hagsmuna og byggja upp atvinnulíf á þeim svæðum þar sem bankarnir starfa. Má þar til nefna Norræna fjárfestingarbankann sem er opinberlega stýrt fyrirtæki til þess að stuðla að framþróun á Norðurlöndunum öllum og reyndar baltnesku löndunum líka. Það er einhver skökk hugsun stjórnarliða í þessu máli öllu og kemur það kannski best fram þegar verið er að tala um einkarekstur, sem þeir kalla svo, í heilbrigðiskerfinu. Þar er unnið ötullega að því að taka út rekstrareiningar og fela þær í hendur einkaaðilum í svokölluðu einkarekstrarformi, og menn vilja ekki leggja það að jöfnu við einkavæðingu. Einkarekstrarform í heilbrigðiskerfi er bara undanfari og tæki til þess að framkalla á seinni stigum hina eiginlegu einkavæðingu. Nú um sinn, meðan menn standa í því að setja rekstrareiningar í einkarekstur, finnur almenningur ekki fyrir þessu en ef einkarekstrarformið er komið yfir allt heilbrigðiskerfið sem margir stefna að er auðvelt að gera alls konar ráðstafanir á hinum endanum, í Tryggingastofnun sem enn um sinn borgar brúsann, í framhaldi af einkarekstrarforminu til að draga úr hinni almennu þjónustu. Það væri þá einföld ákvörðun ríkisstjórnar á hverjum tíma að ekki kæmu peningar í gegnum Tryggingastofnun til að borga það sem menn tala nú svo fjálglega um að þeir ætli að borga um aldur og ævi þrátt fyrir að menn séu á leið í einkarekstrarform.

[15:15]

Við höfum líka verið mjög andvíg því að fara í einkarekstur og einkavæðingu t.d. í stoðkerfinu sem lýtur að rafmagnsframleiðslu. Þar eru komin fram dæmi sem hafa gefist ákaflega illa, sérstaklega í strjálbýlum löndum, eins og t.d. Svíþjóð sem hefur farið í gegnum einkavæðingarferli. Þar hefur slík kerfisbreyting leitt til þess að menn hafa auðvitað, eins og gildir um einkafyrirtæki, viljað fá afrakstur af sínu fé sem hefur leitt til þess að rafmagnsverð hefur orðið allmiklu hærra sérstaklega í dreifbýli. En það sem menn áttu þó síður von á er að það hefur líka hækkað í þéttbýlinu.

Hv. þm. Jón Bjarnason kom vel inn á það áðan með Landssímann og það er stefna okkar líka að við viljum að fjarskiptin séu í höndum opinberra aðila og lítum á það sem grunnalmannaþjónustu, enda hefur það komið fram í skoðanakönnunum, eins og hv. þm. Jón Bjarnason rakti svo vel, að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill ekki að Landssíminn verði seldur og menn vilja líta á hann sem þjóðarfyrirtæki sem þjóni landsmönnum öllum.

Hv. þm. Kristján Pálsson kom hér í andsvari áðan og talaði um að einkavæðing og sala ríkisfyrirtækja væri forsenda þess að hægt væri að fara í opinberar framkvæmdir úti á landi svo sem gangagerð og vegagerð. Þetta er mjög mikil einföldun á hlutum og er til þess fallið að kaupa stuðning manna við eitthvað sem þeir aðhyllast ekki ef þeir fái eitt eða annað í staðinn, eins og göng eða aukna vegagerð. Að þeim málum er hægt að standa á annan hátt. Núna eru eyrnamerktir vegna sölu að mig minnir 1,3 milljarðar í fjárhagsáætlun.

Við höfum líka mjög vond dæmi vegna stærðar landsins sem mér er mjög umhugað um. Þessi hugsun um samkeppni, einkavæðingu, hefur leitt okkur út á hálar brautir á mjög mörgum póstum, eins og t.d. í flugmálunum. Ég held að það að framkalla og setja af stað óhefta samkeppni í svo stóru landi hafi t.d. orðið til þess að þjónusta í flugi er miklu minni en hún var bara fyrir 10 árum. Mikil samkeppni hófst milli félaga sem fíruðu niður verði um tíma og á tímabili t.d. var hægt að fljúga til Akureyrar fyrir hálfvirði þar sem allir gerðu sér grein fyrir að ekki mundi ganga til lengri tíma. Og við erum þeirrar skoðunar að í slíkum tilfellum hefði verið miklu betra að styðjast við svokallað einkaleyfisform, þannig að hlutirnir færu ekki á þann veg sem þar fór. Við vitum afleiðingarnar, að bæði félögin sem kepptu hvað harðast átu upp allt eigið fé og afleiðingin varð síðan tvöföldun á miðaverði og þjónustu var hætt í mjög veigamiklum póstum á landsbyggðinni.

Samkeppni og einkavæðing og einkarekstur er þess eðlis að það hentar ekki í okkar stóra landi, sérstaklega hvað varðar grunnþjónustumál sem við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði gefum okkur út fyrir og viljum standa alveg sérstakan vörð um og munum gera eins lengi og við höfum mögulegt afl til að sveigja menn af þeirri braut.