Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 15:19:44 (339)

2002-10-08 15:19:44# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil gera sérstaklega að umtalsefni stefnu ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarmálum og hvernig hún hyggst ná fjármagni úr einkavæðingunni til hinna ýmsu verkefna og hvernig það hefur gengið til þessa. Einkavæðing og sala á ríkisfyrirtækjum og á almannaþjónustufyrirtækjum er einn af hornsteinum stefnu ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl., að einkavæða og selja, einkavæða og selja allt sem hægt er. Látið er að því liggja að því fjármagni skuli síðan varið til sérstakra verkefna og gjarnan slegið upp að það skuli fara til fjárfestinga úti á landi. Það er afar óréttmætt að vera að stilla upp einstökum hópum og íbúum landsins eða landshlutum gagnvart því hins vegar að ríkið selji almannaþjónustufyrirtæki. Það er afar óréttlátt, ósanngjarnt og ótilhlýðilegt að gera það með þeim hætti.

Við erum ein þjóð í þessu landi og það er einn ríkiskassi og við seljum ekki Landssímann eða Búnaðarbankann til að leggja vegi á Vestfjörðum eða Austfjörðum og segjum við fólk: Ef þið hafið ykkur ekki hæg þá fáið þið ekki þennan veg, þá seljum við ekki Landsbankann og þá fáið þið ekki þennan veg. Það er ósiðlegt og ekki bjóðandi að tala svona við hina íslensku sameinuðu þjóð. Og ég frábið mér svona málflutning.

Ríkissjóður er einn sjóður og hann er sjóður okkar allra og hagsmunir þjóðarinnar eru hagsmunir okkar allra en ekki að einstakir landshlutar séu dregnir þannig í dilka.

Kannski vita þeir sem þetta segja að það eru einmitt íbúar úti um hinar dreifðu byggðir sem óttast stefnu ríkisstjórnarinnar í einkavæðingu á almannaþjónustu.

Mun sala á bönkunum, sala á ríkisbönkunum verða til þess að auka þjónustu bankanna, viðkomandi banka, á Norðausturlandi, á Vestfjörðum, Vesturlandi, mun hún verða til þess? Nei. Það liggur alveg ljóst fyrir að hún mun ekki verða til þess. Hún mun leiða til þess að bankaútibúum verði lokað. Við höfum fengið smjörþefinn af því.

Í söluskilmálum bankanna, Búnaðarbankans og Landsbankans, eru engin skilyrði sett um þjónustu, engin. Bankarnir eru seldir gjörsamlega kvaðalaust. Sum af þessum bankaútibúum --- tökum bankaútibú Búnaðarbankans í Búðardal sem er stofnað á grunni Sparisjóðs Dalasýslu, sem lagði sitt fjármagn, sína viðskiptavild og meira að segja ábyrgðir ábyrgðarmanna sinna inn í Búnaðarbankann. En þegar verið er að selja Búnaðarbankann, er þá nokkurt skilyrði sett fyrir því að Búnaðarbankinn haldi áfram öflugri og góðri þjónustu í Dalasýslu? Nei. Og það er ekki að furða þótt íbúar Dalasýslu og annarra landshluta óttist um hag sinn, óttist um þjónustu sem verður í boði eftir slíka einkavæðingu. Það er því ruddalegt að skella því framan í fólk og segja að verði bankinn ekki seldur þá fái það ekki þennan veg. Það er virkilega ósiðlegt, virðulegi forseti, ég verð að segja það og ekki samboðið alþingismönnum að hafa þau orð um. Við erum ein þjóð í einu landi og hagsmunir eins eru hagsmunir allra. Þetta vil ég leggja áherslu á.

Í farvatninu er aukin einkavæðing. Hæstv. forsrh. gat þess í ræðu með erlendum bankamönnum að hann vildi aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Hæstv. félmrh. flutti frv. á Alþingi síðasta vetur um einkavæðingu kaldavatnsveitna, að kaldavatnsveitur sveitarfélaga yrðu einkavæddar og gerðar að hlutafélögum þannig að sveitarfélögin gætu selt þau. Við erum á slíkri ferð.

Það er fyllilega ástæða til, herra forseti, að staldra við. Er það þetta sem við viljum? Er það þetta samfélag sem við viljum? Að segja íbúum hvort sem er á Siglufirði eða Raufarhöfn að þeir fái ekki veginn nema bankinn verði seldur. Það er ekki svona afstaða til hinnar íslensku þjóðar sem ég held að hún vilji heyra. Hún vill heyra að hagsmunir okkar allra fari saman og að ekki sé verið að gera eina aðgerð til þess að múta einstökum hópum þjóðfélagsins eins og hér kom fram í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar.

Herra forseti. Það er ekki aðeins sú spilling sem hefur einkennt einkavæðingu Framsfl. og Sjálfstfl. nú síðustu missirin og það hvernig þessir flokkar eru fyrir fram að skipta á milli sín almenningseigum, milli vildarvina sinna, sem haft er sem annar drifkraftur einkavæðingarinnar, heldur einnig það að við erum að ganga út á hæpinn veg í að einkavæða almannaþjónustuna sem er grunnstoðin fyrir samfélagið í landinu. Hún jafnar búsetumun, hún jafnar mun á lífskjörum og hún gefur okkur möguleika til þess að búa sem ein þjóð óháð aðstæðum. Það á við um heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið, fjarskiptin, samgöngurnar og það á, virðulegi forseti, líka við um grunnfjármálaþjónustu sem er undirstaða bæði fyrir líf og störf einstaklingsins og fyrirtækjanna í landinu. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að þetta ferli sé endurskoðað, sala bankanna fari ekki fram öðruvísi en að grunnþjónusta verði tryggð, þeir séu þá seldir með þeim skilyrðum að haldið verði uppi sömu og góðri þjónustu um allt land. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum reyndar að það sé einn sterkur ríkisbanki sem veitir örugga þjónustu um allt land, þar sem arðsemiskrafa fjármagnsins er ekki sett númer eitt, heldur þjónustan, en annar áhættufjármálamarkaður gæti þess vegna verið í einkarekstri.

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á tillögu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að staldra nú við í einkavæðingunni, líta á hvernig gengið hefur, fara yfir málin áður en næstu skref eru tekin.

Virðulegi forseti. Ég tel afar brýnt að svo verði gert.