Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 15:52:15 (342)

2002-10-08 15:52:15# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég þakka frummælanda fyrir að taka upp þessa umræðu, nú við byrjun þingstarfa.

Það má segja að við stöndum á tímamótum hvað varðar framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustunnar því að mörgu leyti mun afgreiðsla fjárlaga ríkisins fyrir árið 2003 hafa afgerandi áhrif á hvernig heilbrigðisþjónustan þróast á næstu árum. Heilbrigðisstofnanir geta ekki haldið áfram óbreyttum rekstri, hvað þá komið á nýrri eða aukinni þjónustu, miðað við tillögur fjárlagafrv. Starfsmenn hafa nú þegar gert sitt ýtrasta til að ná hámarksaðhaldi í rekstri og verður ekki lengra gengið nema það komi niður á þjónustunni. Því miður virðast vera að koma fram merki um að of langt hafi verið gengið í niðurskurði og það komi niður á heilsu sjúklinga svo nú verður að segja stopp við frekari kröfum um sparnað.

Herra forseti. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég tel að fjárlögin fyrir næsta ár geti haft afgerandi áhrif á þróun heilbrigðisþjónustunnar. Ein er sú alvarlega rekstrarstaða sem mjög margar heilbrigðisstofnanir eru í í dag og að öllu óbreyttu mun skuldastaða þeirra annaðhvort halda áfram að aukast eða þær verða að draga úr þjónustunni. Alvarlegasta dæmið er rekstrarstaða Landspítala -- háskólasjúkrahúss og skiptir þá mestu máli hve háar upphæðirnar eru. Gildir þó einu hvort sjúkrahúsið fær 1,2 milljarða kr. framlag á fjáraukalögum nú því það verður skilið eftir með rekstrarhalla upp á rúman milljarð.

Herra forseti. Það er vitlaust gefið í upphafi ef þetta ætlar að verða viðvarandi hallarekstur miðað við núverandi starfsemi. Og sem innlegg í þessa umræðu um Landspítala -- háskólasjúkrahús á það við um þá stofnun að þar liggja enn mjög margir einstaklingar sem hafa fengið fulla meðferð og gætu legið annars staðar, eins og á hjúkrunarheimilum ef þau pláss væru til staðar, en svo er komið að rekstur hjúkrunarheimilanna er mjög erfiður, eins dvalarheimilanna. Þeirra rekstur þarf að bæta og það vantar fleiri stofnanir ásamt heimahjúkrun.

Önnur ástæða þess að ég tel að við stöndum nú á tímamótum er sú að enn hefur ekki verið sett kröftug vinna í að skilgreina fjárhagsvanda og þjónustuhlutverk hverrar stofnunar. Það verður að gera þessa úttekt í samstarfi við fjmrn. og heilbrrn., ásamt fulltrúum hverrar stofnunar fyrir sig.

Við höfum lög um heilbrigðisþjónustu, almannatryggingalög og lög um réttindi sjúklinga. Þessi lög eru skýr hvað varðar hlutverk og ábyrgð heilbrigðisþjónustunnar almennt en miðað við rekstrarstöðu hverrar heilbrigðisstofnunar stangast ákvæði laganna á við þjónustugetu hverrar þeirra. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að hið almenna forvarnastarf veikist jafnt og þétt því það krefst aldrei sömu skjótu úrlausnar og móttaka sjúklinga.

Þriðja ástæðan, herra forseti, er staða heilsugæsluþjónustunnar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Hún er mjög veik vegna þess að hér vantar fleiri heilsugæslustöðvar og hún er auk þess fáliðuð. Kjaramál lækna hafa sett alla starfsemi stöðvanna í, að því er virðist, óleysanlegan hnút. Senn líður að því að uppsagnir margra taka gildi og starfsemi þeirra stofnana sett í uppnám. Aðdragandi þessarar deilu er orðinn langur og margflókinn og snertir úrskurð kjarasamninga, launakjör og síðast en ekki síst viðurkenningu á sérfræðinámi.

Herra forseti. Það er eingöngu pattstaðan í kjaramálum heilsugæslulækna sem er ný í stöðunni. Aðrar ábendingar hafa áður komið fram við afgreiðslu fjárlaga og við umræður á þingi og í blaðaskrifum en ekki verið á þær hlustað. Mér finnst líklegt að skilningsleysi á stöðu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár hafi átt ríkan þátt í því að koma málum í þann hnút sem þau eru í í dag og um leið að gefa hugmyndum um einkarekstur byr undir báða vængi.

Að áliti margra á allt að lagast ef hægt verður að koma sem mestu af þjónustu heilsugæslulækna í einkarekstur. Enn meira af þeirri þjónustu sem fram til þessa hefur verið framkvæmd á sjúkrahúsum fari í einkarekstur. Og hver er svo munurinn á einkarekstri og einkavæðingu? Jú, þessum hugtökum á ekki að rugla saman en hlutfall heilbrigðisþjónustu í einkarekstri með greiðsluþátttöku sjúklinga og Tryggingastofnunar ríkisins hefur sífellt aukist. Það er örstutt bil á milli þess að koma heilbrigðisþjónustunni í einkarekstur og að einkavæða hana að hluta eða öllu leyti og láta frjálsar tryggingagreiðslur og sjúklingana sjálfa fjármagna reksturinn að fullu.

Hæstv. heilbrrh. hefur margsinnis lýst því yfir að hann vilji standa vörð um heilbrigðiskerfi sem sé aðgengilegt fyrir alla og hafa eitt kerfi innan heilsugæslunnar. Hæstv. heilbrrh. er því í erfiðri stöðu sem hann verður að leysa á næstu vikum. Heilsugæslukerfið á höfuðborgarsvæðinu er sprungið með hinum miklu fólksflutningum af landsbyggðinni á undanförnum árum. Þá hefur fólksfjölgunin orðið langt umfram spár. Þessi staða ein og sér átti fyrir löngu að vera búin að kalla á úrbætur.

Aðild okkar að EES hefur einnig haft áhrif á afkastagetu heilsugæslulækna því ströng ákvæði um hvíldartíma lækna fækka viðverustundum í móttöku, og á þetta ekki síst við um lækna úti á landsbyggðinni. Þessum ákvæðum hefur ekki verið mætt með því að ráða fleiri lækna, fjölga stöðugildum, og er hugsanlega ekki hægt, eða ekki auðvelt að ráða fleiri lækna vegna þeirra starfskjara sem þeir telja sig búa við í dag.

Herra forseti. Innlegg fjmrn. fyrir skemmstu í umræðum um fjárhagsvanda í heilbrigðiskerfinu var athyglisvert því af orðum hæstv. fjmrh. má ráða að meira fé kemur ekki til málaflokksins að svo stöddu, það verði að greina hvers vegna hann þenjist svo út. En hafa heildarútgjöld ríkisins miðað við verga þjóðarframleiðslu aukist óhóflega eða umfram það sem gerist í öðrum OECD-löndum?

Það má leika sér að tölum og samanburði milli landa. Árið 1997 var hlutfallið hér á landi 6,7% af vergri þjóðarframleiðslu en 1999, sem var viðmiðunarár hæstv. ráðherra, var hlutfallið komið í 7,9% vergrar þjóðarframleiðslu. En staðreyndin er sú að einmitt þetta ár, árið 1999, virðist hafa verið toppur í heildarútgjöldum til málaflokksins og má finna á því haldbæra skýringu. Samkvæmt nýjustu tölum frá Þjóðhagsstofnun virðist þetta hlutfall fara lækkandi á nýjan leik og losa 7,5% árið 2001. Og þá erum við í meðallagi hvað útgjöld til málaflokksins varðar borið saman við önnur OECD-lönd. Svona samanburður þarf að ná a.m.k. yfir tvo áratugi og skoða þarf þá þætti sem hafa áhrif á þróunina svo við getum áttað okkur á því hvað hefur áhrif á hækkun útgjalda.

Viljum við ekki hafa góða heilbrigðisþjónustu? Og er þá nokkuð að því að vera í meðallagi hvað varðar útgjöld til málaflokksins? Við Íslendingar erum fámenn þjóð í stóru og strjálbýlu landi og verðum að lifa með þeirri staðreynd að það kostar mikið að halda uppi heilbrigðisþjónustu í fremstu röð við slíkar aðstæður.

Herra forseti. Hér hefði verið mjög áhugavert að fara yfir nokkra þá þætti sem við getum bætt án mikils kostnaðar með því að breyta áherslum, efla frumþjónustu heilsugæslunnar og spara til lengri tíma er litið, en í svo stuttri utandagskrárumræðu er varla tími til þess. Ég óska ráðherra góðs gengis í þeim viðræðum sem í hönd fara svo að vanda heilsugæslunnar megi leysa, okkur öllum til heilla.