Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:08:57 (344)

2002-10-08 16:08:57# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:08]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir að hafa fært þetta mál inn í utandagskrárumræðu hér á Alþingi.

Eftirspurn eftir læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið jafnt og þétt síðustu ár, m.a. vegna fólksfjölgunar á svæðinu og einnig vegna breyttrar aldurssamsetningar. Einnig er, eins og allir vita, stöðugur straumur sjúklinga utan af landsbyggðinni til Reykjavíkur vegna alvarlegra veikinda eða eftir slys.

Framlög ríkisins til heilbrigðiskerfisins hafa aukist ár frá ári og eru hér á landi með því hæsta sem gerist innan OECD-ríkjanna. Þessu guma stjórnarflokkarnir af og sífellt er klifað á því að íslenska heilbrigðiskerfið sé eitt það besta í heiminum.

En er nýting okkar á takmörkuðum fjármunum til heilbrigðisþjónustunnar hagkvæm? Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á rekstri heilsugæslunnar í Reykjavík frá því í september 2002 er að finna eftirtaldar ábendingar til heilbrigðisyfirvalda varðandi það sem betur mætti fara. Þar er talin nauðsyn á skýrari stefnu og hugmyndum um hlutverk heilsugæslunnar innan heilbrigðiskerfisins. Þar er minnst á æskilega forgangsröðun verkefna, á það að stofnanir einbeiti sér að þeim verkefnum sem mikilvægust eru talin fyrir starfsemina og dreifi ekki kröftum sínum og fjármunum um of. Einnig er þar bent á að breyta þurfi launakerfi lækna, tekið verði upp fastlaunakerfi sem virðist hafa neikvæð áhrif á afköst, eins og segir í skýrslunni. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Að samanlögðu telur Ríkisendurskoðun einsýnt að huga þurfi að breytingum á launafyrirkomulagi heilsugæslulækna þannig að tengsl launa og frammistöðu verði aukin.``

Í skýrslunni segir einnig að mælt sé með því að skoðað verði hvort auka skuli miðlæga þjónustu og tvinna saman miðlæga og hverfislæga þjónustu á hagkvæman hátt. Heilbrigðisyfirvöld þurfi að meta hvort hugsanlegur ávinningur eða sparnaður og aukin afköst af því að gera fleiri þjónustuþætti miðlæga vegi þyngra en áherslan á nærþjónustuna.

Herra forseti. Um skeið hafa ýmis teikn verið á lofti um aukna áherslu á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Talsmenn einkavæðingar telja að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu leiði sjálfkrafa til jákvæðrar markaðssetningar og hagkvæmni í rekstri. Eigi að beita markaðslausnum til að ná hagkvæmni í rekstri heilbrigðisþjónustunnar má efnahagur aldrei fá að ráða aðgangi einstaklinga að þjónustunni. Jafn aðgangur allra landsmanna skal tryggður. Faglegt eftirlit með kostnaði ríkisins við læknisþjónustu þarf að herða og skilgreina verkefnin svo betri yfirsýn náist yfir kostnaðinn í heilbrigðiskerfinu.

Í fjárlagafrv. sem við ræddum hér fyrir nokkrum dögum er ekki tekið á vandanum í heilbrigðiskerfinu. Það kom fram í máli málshefjanda að tæpa 3 milljarða mundi vanta inn í heilbrigðiskerfið, um 1 milljarð inn í kerfi daggjaldastofnana og þar að auki þyrfti að taka á vanda geðfatlaðra sem einnig er óleyst vandamál. Samanlagður vandi sem fjárln. þarf á þessu hausti að taka á ásamt heilbrrh. er sennilega upp á 4--5 milljarða kr.

Það er auðvitað svo að vandinn í heilbrigðiskerfinu er stór. Hann er ekki auðleystur. Þetta vandamál verður að leysa með sameiginlegu átaki og sameiginlegum vilja alþingismanna. Við gerum kröfu til að búa í þessu þjóðfélagi við góða og örugga heilbrigðisþjónustu og við þurfum að sameinast um að heilbrigðisþjónustan verði efld og aðgangur allra landsmanna verði tryggður án tillits til tekna. Það þarf að endurskoða lyfjakostnað og nauðsyn er á að vinna að því að auka sjúkrarými.

Herra forseti. Ég rak nýlega augun í samantekt í Læknablaðinu um aukinn kostnað vegna geðlyfja. Ég býst við að hæstv. heilbrrh. hafi flett þessu blaði enda er þessi samantekt sem ég er hér með fyrir framan mig, herra forseti, unnin af deildarstjóra í heilbr.- og trmrn. Ég verð að segja að það vekur undrun mína hversu mikil aukning er á notkun tauga- og geðlyfja og í annan stað hin geysileg kostnaðaraukning sem er samfara þeirri notkun sem kemur fram á þessari töflu. Því vil ég spyrja hæstv. heilbrrh. að lokum hvort það hafi verið skoðað í heilbrrn. hvernig þessi þróun hefur verið og hver ástæðan er fyrir hinni miklu aukningu á notkun þessara lyfja.