Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:29:26 (349)

2002-10-08 16:29:26# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:29]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Eitt mesta vandamál heilbrigðisþjónustunnar nú er áralangur trassaskapur ráðherra Framsfl. í heilbrrn. Þessi trassaskapur er okkur ákaflega dýr um þessar mundir og er hluti af vandamálinu. Ráðuneyti heilbrigðismála verður að hafa einhverja framtíðarsýn í málefnum heilsugæslunnar og heimilislækna og ganga rösklega fram í að gera þetta sérfræðinám lækna að fýsilegum kosti ungra lækna og fýsilegum kosti þeirra sem hafa þessa sérfræðimenntun í dag en eru annaðhvort hættir eða að hætta eða vilja alls ekki koma heim til Íslands.

Nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar er þungur áfellisdómur, en þar segir m.a. að það þurfi að móta skýrari stefnu um verkaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins, stöðu og hlutverk heilsugæslunnar innan þess og framfylgja þeirri stefnu. Enn fremur segir Ríkisendurskoðun að það sé full ástæða til þess, m.a. í ljósi alþjóðlegra rannsókna og reynslu, að heilbrigðisyfirvöld kanni vandlega kosti og galla þess að heilsugæslan fái aukið hlutverk til að stýra aðgengi sjúklinga að heilbrigðiskerfinu.

Herra forseti. Heilsugæslunni hefur ekki verið gert kleift að sinna grunnþjónustu sinni sem fyrsta stigi heimsóknar sjúklinga. Heimilislæknar eru sérfræðilæknar sem eiga að sinna fyrstu heimsókn sjúklinga og vísa þeim áfram. Þetta kerfi er í raun framkvæmt á mörgum stöðum á landsbyggðinni en þar er einnig mikil vá fyrir dyrum, þ.e. læknaskortur, vegna þess að heimilislæknar eru að gefast upp á sérfræðigrein sinni vegna skipulagsleysis, aðstöðuleysis og stjórnleysis. Gera menn sér almennt grein fyrir því að það eru ekki nema kannski tvö ár síðan að heilsugæslulæknar á landsbyggðinni fengu bíl til afnota? Áður þurftu þeir að nota sinn eigin bíl og það var hluti af vandamálinu. Heimilislæknar hafa ekki fengið viðurkenningu á sérfræðimenntun sinni og þess vegna er stéttin að deyja út. Endurnýjun er lítil sem engin og ungir læknar leita ekki í þetta sérfræðinám.

Herra forseti. Ég tel að nú sé þýðingarmest að setja upp áætlun til nokkurra ára sem geri það að verkum að fleiri ungir læknar fari í sérfræðinám í heimilislækningum og að heimilislæknar verði ánægðir í starfi sínu og komi til baka, vegna þess að fjölmargir íslenskir heimilislæknar koma ekki heim að námi loknu, eins og áður sagði. Herra forseti. Ég tel að landsmenn bíði eftir því að ráðherra heilbrigðismála skýri þjóð sinni frá hvað gera eigi í málefnum heilsugæslunnar.

Hv. þm. Ásta Möller talaði um það áðan að þreyta væri í kerfinu. Ég er henni hjartanlega sammála. Sjálfumgleði ráðherra í ríkisstjórninni varðandi efnahagsmál hefur gert það að verkum að litlar tímasprengjur hafa verið að hlaðast upp um allt kerfið og núna er það að koma í ljós í heilbrigðisgeiranum sem annars staðar. Það er tímabært að fara að losna við þessa þreyttu ríkisstjórn.