Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:32:33 (350)

2002-10-08 16:32:33# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:32]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Framkvæmdastjóri alþjóðlegs fyrirtækis á heilbrigðissviði heimsótti nýlega Ísland og velti upp í framhaldinu spurningunni um það hvort við Íslendingar rækjum hér heilbrigðiskerfi eða sjúklingakerfi. Spurningin er þess virði að íhuga hana.

Sé litið til tannlækna má segja að þeir stundi markvissa og kerfisbundna heilsugæslu. Tekist hefur á nokkrum áratugum að útrýma nánast alveg alvarlegum tannskemmdum. Þannig má segja að tannlæknar hafi unnið þrekvirki með skipulagðri heilsugæslu en um leið í rauninni grafið undan sér hverjum og einum, svo einkennilega sem það nú hljómar.

Öðru máli gegnir um aðra þætti heilbrigðismála. Segja má að við höfum á mörgum áratugum þróað hér allgott sjúklingakerfi í þeirri merkingu að aðaláhersla kerfisins byggir á því að taka við einstaklingum þegar sjúkdómar eru farnir að herja á þá í stað þess að sporna við þeim. Sannarlega veitum við fólki góða þjónustu á þessu sviði en mikið óskaplega er hún dýr. Frábærir sérfræðingar, hjúkrunar- og umönnunarfólk skilar stórkostlegu verki til sjúklinga. Húsnæði er glansandi og fínt að ekki sé minnst á hin öflugu lyf sem í boði eru og fleytir stöðugt fram og verða stöðugt dýrari.

Kostnaðurinn við sjúklingakerfið er hár, svo hár að þó að við verðum öllum fjárlögum til þess málaflokks dygði það ekki til þess að ná fullkomnum árangri, sem líklega næst aldrei.

Við erum að auka útgjöldin núna á milli ára um rúma 6 milljarða kr. og meira er í pípunum. Þannig hefur það verið lengi og mun áfram verða svo lengi sem við rekum hér sjúklingakerfi. Fyrir vikið skapast oft eldheit umræða um fjárskort með tilheyrandi undarlegum upphrópunum.

Við getum deilt hér í allan dag og fram á nótt um það hvort nógu sé varið af fjármunum til að halda uppi sjúklingakerfi. Væri ekki nær samt að beina umræðunni að heilbrigðiskerfi, kerfi sem markvisst stuðlar að því að byggja upp þannig líferni að sjúkdómar víki fyrir heilbrigðu lífi? Þetta má kalla forvarnastefnu eða hvað annað. En slík stefna verður ekki bara mótuð innan veggja Alþingis. Við erum að ræða um samfélagslegt vandamál, við erum að ræða um lífsgildi og lífsmáta fólksins í landinu.

Ég fullyrði að þrotlaust kapphlaup þjóðarinnar um forgengilega hluti er veruleg uppspretta meiri hluta þeirra sjúkdóma sem við erum að glíma við í dag. Í stressinu þar sem manneskjan hefur gleymt sjálfri sér og fjölskyldu sinni þrífst illgresið, stresssjúkdómarnir, eineltið, hjartasjúkdómarnir og hvað þeir nú heita allir hinir illvígu velferðarsjúkdómar. Og hvað skyldu þeir nú kosta þjóðina? Ég fullyrði tugi milljarða kr. á hverju ári.

Herra forseti. Byggjum upp heilbrigðiskerfi og leggjum niður sjúklingakerfið.