Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:35:56 (351)

2002-10-08 16:35:56# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:35]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ætli sé ekki óhætt að alhæfa um það að Íslendingar vilji almennt stuðla að öflugu heilbrigðiskerfi í landinu?

Hér ræðum við stöðuna í heilbrigðismálum og hún er að snúast upp í umræðu um skipulagsform til framtíðar. Mér þykir mjög merkilegt að sjá hvernig hinar pólitísku línur eru að teiknast upp hér við þessa umræðu. Það vekur athygli mína að talsmenn Sjálfstfl. hafa talað fyrir einkavæðingu eða ,,einkarekstri innan heilbrigðisþjónustunnar``, eins og það heitir, og helsti talsmaður Sjálfstfl. í heilbrigðismálum, hv. þm. Ásta Möller, vék sérstaklega orðum að þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sem hún telur hvað einarðasta andstæðinga einkavæðingar innan velferðarþjónustunnar. Reyndar setti þingmaðurinn þetta upp í heldur neikvæðara samhengi og reyndi að kenna okkar afstöðu við það að vera á móti. Þá gleymist hitt, hvers vegna. Hvers vegna erum við andvíg því að innleiða einkavæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar? Við viljum nálgast málefnið frá öðrum sjónarhóli og spyrja: Hvernig tryggjum við heilbrigðisþjónustu sem er í senn hagkvæm og ódýr, að við nýtum það fjármagn sem er til ráðstöfunar á sem hagkvæmastan hátt? Þá viljum við tryggja jafnræði og jöfnuð innan kerfisins og við viljum tryggja sem allra best gæði. Þetta eru þau markmið sem við viljum ná fram.

Við höfum bent á, og tökum undir með þeim úr stjórn og stjórnarandstöðu sem vilja leggja áherslu á sameiginlega samhjálp, að dýrasta, langdýrasta heilbrigðiskerfi í heiminum er hið einkarekna heilbrigðiskerfi í Bandaríkjunum. Það er staðreynd og við skulum skoða og leggjast yfir þau dæmi sem við höfum því til staðfestingar.

Þá er á hitt að líta að einkavæðing innan heilbrigðisþjónustunnar leiðir gjarnan til mismununar. Sjálfstæðismenn tala nú á þá lund að þetta vaki ekki fyrir þeim, að það eigi að láta skattborgarann greiða fyrir alla þjónustuna. En þá spyr ég hvort orðið hafi kúvending frá því að fjmrn. gaf út bækling árið 1998 þar sem segir m.a., með leyfi forseta, að við einkaframkvæmd innan þjónustunnar ,,verði sem stærstur hluti tekna rekstraraðila fenginn með notendagjöldum``.

Hvað þýðir þetta innan heilbrigðiskerfisins? Að sjálfsögðu þýðir þetta sjúklingaskattar og það er nokkuð sem við höfum varað við og reyndar vakið athygli á því hvernig gjöld sem sett hafa verið á sjúklinga hafa vaxið stórlega á undanförnum árum.